136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:02]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar segja að ég er efnislega sammála því sem fram kom í upphafi ræðu hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, um mikilvægi þess að í þessari umræðu sé rætt um efni frumvarpsins. Það er nefnilega þannig að í umræðu um Seðlabankann, stjórnskipun hans og peningamálastefnu, hafa önnur atriði en efnisatriði frumvarpsins verið mest áberandi.

Menn hafa t.d. hér í dag rætt mikið um peningamálastefnu Seðlabankans en í frumvarpinu sem við fjöllum um hér í dag er ekkert vikið að peningamálastefnunni og hún hefur ekkert með frumvarpið að gera. Frumvarpið er fyrst og síðast formbreyting á skipulagi og uppbyggingu þessa banka. Það hefur líka staðið málefnalegri og efnislegri umræðu um málefni Seðlabankans fyrir þrifum með hvaða hætti stjórnmálamenn ákveðinna flokka hafa talað um þá sem þar hafa starfað. Rætt hefur verið um hreinsanir í stjórnkerfinu, ekki bara í Seðlabankanum heldur almennt í stjórnkerfinu, og ég verð að segja það fyrir mína parta að mér finnst miður að menn tali með þeim hætti um embættismenn, hvort sem það eru seðlabankastjórar eða aðrir.

Ég hélt satt best að segja að umræðu á þeim nótum væri lokið og við ættum einungis eftir að lesa um hana í sögubókum um stjórnmál sem tíðkuðust hér fyrr á öldum eða fyrr á árum eða í skáldsögum, í Skáldatíma Kiljans eða einhverju slíku. Það hefur því valdið mér miklum vonbrigðum með hvaða hætti sumir hæstv. ráðherrar hafa talað í þessu máli, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur átt ágætissamstarf á liðnum árum við þá menn sem hún hefur fjallað um upp á síðkastið með þeim hætti að nauðsynlegt sé að ráðast í hreinsanir líkt og gert var í löndum sem við kjósum að bera okkur ekki saman við. Ég vona að í komandi umræðu um þessi mál tileinki menn sér annað orðfæri og aðra framkomu gagnvart þeim sem í hlut eiga.

Það þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikið áfall hrun fjármálakerfisins var og þær alvarlegu afleiðingar sem það hafði í för með sér. Við höfum horft upp á það að að minnsta kosti 85% af bankakerfinu eru hrunin. Búið er að mynda nýja ríkisstjórn, bankamálaráðherrann sagði af sér og mikil uppstokkun hefur orðið í stjórnkerfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann væri ekkert á móti því að farið yrði í breytingar á starfsemi Seðlabankans eða annarra stofnana. Það hefur komið fram að í vinnslu voru hugmyndir milli fyrrum stjórnarflokka, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins, um að gera breytingar á starfsemi Seðlabankans. Við höfum lýst því yfir að við vildum skoða samspilið milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og jafnvel sameiningu þessara stofnana eins og rætt hafði verið um. Við efnahagshrunið hljóta menn að vilja skoða eftirlitskerfið og bankakerfið í heild sinni en ekki bara einstaka þætti þess.

Ég tel mjög mikilvægt við þær aðstæður sem uppi eru að vandað sé til verka og fagleg vinnubrögð séu viðhöfð við vinnslu þessa máls. Þeir hv. þingmenn sem styðja ríkisstjórnina og jafnvel einstaka ráðherrar hafa haft hér uppi mörg orð í þinginu um fagleg vinnubrögð, faglega verkferla og annað slíkt. Einn þeirra er hæstv. heilbrigðisráðherra sem stundum hefur staðið á öndinni sem stjórnarandstæðingur og kvartað undan vinnubrögðum hér í þinginu. En það er því miður þannig í þessu máli að vinnubrögðin eru ekki til þess að hrópa húrra fyrir.

Þeir sem tala fyrir gagnsærri og opinni stjórnsýslu og hvetja til þess að allar upplýsingar séu uppi á borðinu geta ekki fagnað frumvarpinu og þeim vinnubrögðum sem liggja því að baki, hv. þingmenn eins og Jón Bjarnason og Árni Þór Sigurðsson, svo að ég tali nú ekki um hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. (Gripið fram í.)

Í skýrslu forsætisráðherra sem flutt var hér fyrir tveimur dögum sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Sú ríkisstjórn sem nú er að hefja sína fyrstu vinnuviku er frjálslynd velferðarstjórn sem starfar á grundvelli víðtæks samráðs.“

Þessi ríkisstjórn starfar á grundvelli víðtæks samráðs. Ekki er hægt að segja að samráðið í tengslum við þetta frumvarp hafi verið mikið þannig að fyrstu skref ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra eru ekki gæfuleg þegar kemur að samráði og upplýsingagjöf. Ég bara skil ekki hvers vegna hæstv. forsætisráðherra vill ekki upplýsa okkur þingmenn um það hverjir sömdu þetta frumvarp. Af hverju í ósköpunum er það leyndarmál hvaða sérfræðingar komu að vinnu málsins? Hvað hefur hæstv. forsætisráðherra að fela í því?

Ég hef verið hér á þingi síðan 2003 og fram til þessa verið partur af stjórnarmeirihluta og farið höndum um mörg stjórnarfrumvörp, bæði sem formaður nefnda og sem nefndarmaður í nefndum þingsins. Það er undantekningarlaust þannig að þegar stjórnin flytur frumvarp er þess getið hverjir standa að samningu þess. Af hverju er það gert — og nú beini ég orðum mínum sérstaklega til hæstv. viðskiptaráðherra? Það er vegna þess að í nefndarstörfum hér í þinginu köllum við fyrir gesti til þess að upplýsa þingið um mál, til þess að upplýsa það hvaða sjónarmið lágu að baki samningu frumvarpsins. Þetta er gert til þess að upplýsa þingið um það hvaða grundvallaratriði lágu að baki þeim texta sem menn ætla að færa í lög.

Við höfum óskað eftir því að hæstv. forsætisráðherra upplýsi okkur um það hverjir komu að samningu frumvarpsins. Því hefur verið hafnað og ég skil ekki hvers vegna. Það er eðlileg ósk frá okkur þingmönnum sem eigum að vinna með frumvarpið að við getum kallað þá sem unnu að því fyrir nefndina til þess að þeir geti svarað því hvaða sjónarmið bjuggu þar að baki. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem hefur talað fyrir opinni stjórnsýslu og gagnsæi, hverju þetta sæti og hvernig þetta rími við ofangreind orð sem hún lét falla fyrir tveimur dögum í skýrslu sinni hér fyrir þinginu, fyrir framan alþjóð í beinni útsendingu.

Þetta er nú allt samráðið. Við erum að tala um uppstokkun í Seðlabanka Íslands, frumvarp sem lagt er fram eftir að fjármálakerfið hefur hrunið. Þetta er viðleitni ríkisstjórnarinnar til þess að stokka upp fjármálakerfið og við sem erum í stjórnarandstöðunni og eigum að fjalla um þetta mál fáum ekki einu sinni að vita hverjir unnu að frumvarpinu eða hvaða sjónarmið þeir lögðu af mörkum. Ég hlýt að lýsa yfir gríðarlegum vonbrigðum með þessi vinnubrögð og það kemur mér verulega á óvart að hæstv. forsætisráðherra, sem setið hefur á þingi í 31 ár og hefur marga fjöruna sopið og farið yfir mörg frumvörp, skuli standa að vinnubrögðum eins og þessum.

Af hverju vill hæstv. forsætisráðherra heldur ekki upplýsa okkur um það hvaða fyrirmyndir hinir leyndu höfundar frumvarpsins, hulduherinn, lögðu til grundvallar við samningu þess? Af hverju er það líka leyndarmál? Það var óskað eftir þessum upplýsingum. Hefði ekki verið ástæða til þess að menn fengju að vita hvaða hliðstæður menn höfðu í huga þegar þeir voru að semja þetta frumvarp? Er ekki ástæða til þess við þessar aðstæður? Það er ekki eins og fyrirkomulag þessara mála, seðlabanka víðs vegar í heiminum, sé alls staðar það sama. Þegar þingið er að ákveða það hvernig þessum málum eigi að vera háttað í framtíðinni er eðlilegt að þingmenn fái að vita hvaða fyrirmynda var leitað, ég tala nú ekki um þegar menn vilja vinna hörðum höndum saman að því að endurreisa fjármálakerfið og stjórnsýslu þess. Öllum óskum um þetta er neitað. Gagnsæið og samráðið, sem rætt var um í skýrslu hæstv. forsætisráðherra fyrir tveimur dögum, er að engu orðið, við fáum ekkert að vita.

Hinn faglegi hæstv. viðskiptaráðherra, sem stóð hér úti á Austurvelli og mótmælti og hvatti til upplýsingagjafar og gagnsæis í stjórnsýslunni og breytinga, lýsir því hér yfir, nú sestur á ráðherrabekkinn, að hann skilji ekkert í því hvers vegna þetta skipti einhverju máli. Þetta skiptir máli fyrir okkur þingmenn sem berum ábyrgð á framgangi mála og vinnslu þeirra og berum virðingu fyrir störfum þingsins. Það skiptir máli að við fáum að vita hverjir hafa komið að samningu mála þannig að við getum tekið málefnalega á þeim. Ég hlýt að lýsa furðu minni á þessum viðbrögðum og vinnubrögðum og furðu minni á því að hér í þingsalnum séu þingmenn, þar á meðal frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem gera lítið úr athugasemdum eins og þessum — þingmenn sem hafa staðið hér og út úr þeim hefur staðið bunan um það á síðustu árum, jafnvel í 18 ár, að vinnubrögðin hér á þinginu séu ekki boðleg. Svo komast þeir í meiri hluta og þá er þetta niðurstaðan.

Ég vona bara að Framsóknarflokkurinn, af því að ég trúi nú að í honum sé heiðarleg taug, muni ekki sætta sig við þessi vinnubrögð þeirrar ríkisstjórnar sem hann styður. Ég treysti því að svo verði enda hefur orðið töluverð endurnýjun í Framsóknarflokknum, meiri endurnýjun en lýsir sér í þeirri ríkisstjórn sem nú hefur tekið við.

Frú forseti. Það vekur furðu, eins og komið hefur fram hér í umræðunni, að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, skuli leggja það til í þessu frumvarpi að ráðherra skipi bankastjóra í ljósi hennar eigin orða sem féllu á Alþingi árið 1999. Þar andmælti hún því að ráðherra skipaði bankastjóra, bankaráðið ætti að gera það. Þetta eru sannarlega undarleg sinnaskipti. Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. forsætisráðherra, sem hefur látið sig varða réttindi og skyldur á vinnumarkaði, hver hennar sjónarmið eru um það hvernig frumvarpið og það bréf sem hún sendi bankastjórn Seðlabankans samræmist þeim grundvallarreglum og grundvallarsjónarmiðum sem við viljum fylgja á vinnumarkaði óháð því hver í hlut á.

Ég minni á það að í skýrslu forsætisráðherra, sem flutt var fyrir tveimur dögum, sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Höldum í heiðri mannréttindi allra og gætum þess að uppgjör okkar snúist ekki upp í nornaveiðar af neinu tagi. Við búum í réttarríki og það er hvorki vilji ríkisstjórnarinnar né alþingismanna að ganga á svig við meginreglur réttarríkisins, það vil ég undirstrika hér í kvöld.“

Því má halda fram að þau vinnubrögð sem hér eru höfð uppi gangi gegn þeim meginprinsippum sem menn hafa reynt að starfa eftir á þessu sviði.

Frú forseti. Frumvarpið er að mínu mati illa unnið og það vekur upp fleiri spurningar en það svarar. Fyrir utan það mikla leyndarmál sem hvílir yfir því hverjir sömdu frumvarpið er ekkert sagt um framtíð peningamálastefnunnar sem stuðningsmenn þess hafa helst gagnrýnt. Ekkert er heldur fjallað um það hvað gerist ef bankastjóri þarf að hverfa frá og hvað verður varðandi staðgengil seðlabankastjóra sem lendir í þeirri stöðu. Í rauninni má segja, eins og margir hv. þingmenn hafa nefnt hér, t.d. hv. þm. Ólöf Nordal, að frumvarpið veki upp fleiri spurningar en það svarar. Ég treysti því að hæstv. forsætisráðherra hafi tekið niður allar okkar spurningar, okkar sjálfstæðismanna, vegna þessa frumvarps sem enginn vill segja hver samdi. Það er ljóst að hver sem örlög frumvarpsins verða liggur fyrir að það þarf gríðarlega mikla yfirlegu og mikla vinnu (Forseti hringir.) í þeirri þingnefnd sem mun fá það til umfjöllunar.