136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og reyna að svara ýmsum spurningum sem beint hefur verið til mín.

Mikið hefur verið spurt um hverjir hafi komið að vinnslu frumvarpsins og hvaða hugmyndir hafi þar legið að baki. Áður hefur verið flutt frumvarp um Seðlabankann og farið fram umræða um breytingar og að koma á peningastefnunefnd. Fólk á vegum stjórnvalda var í þessari vinnu og ekki var skipaður sérstakur hópur með föstum tilnefningum í, m.a. var byggt á þeirri vinnu sem var unnin árið 2001 og aftur í frumvarpi 2005. Við vinnslu frumvarpsins lá m.a. fyrir skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2005 þar sem gerður var samanburður á stjórnskipulagi seðlabanka víða um heim. Samkvæmt þeirri úttekt er afar mismunandi hvernig stjórnskipulagi seðlabanka er háttað, þó er algengast að í seðlabönkum starfi peningastefnunefndir en hins vegar er afar mismunandi hvernig þær eru skipaðar og á skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verður ekki greind nein meginregla í því sambandi.

Frumvarpið var unnið á vegum stjórnvalda og leitað var óformlegra sjónarmiða ýmissa aðila, bæði virtra hagfræðinga og lögfræðinga. Af því að hér er kvartað undan að ekki sé nákvæmlega til tekið í frumvarpinu hverjir hafi haft sjónarmið eða skoðanir eða til hverra var leitað við vinnslu frumvarpsins þá er langt í frá að í frumvörpum séu listaðir upp allir þeir sem leitað hefur verið til um sjónarmið, en svona var í grundvallaratriðum staðið að þessu.

Einnig hefur mikið verið talað um hæfisskilyrðin sem sett eru í 3. gr. og sumir hafa bent á að þau þyrftu að vera víðtækari og það hverjir geta sótt um stöðu seðlabankastjóra geti ekki einskorðast við þá sem hafa lokið meistaraprófi í hagfræði verði frumvarpið að lögum. Ég er með lista yfir bakgrunn seðlabankastjóra 38 landa og af þeim eru bara tveir sem ekki hafa hagfræðimenntun, í Frakklandi og Lúxemborg, en hvorugt landið hefur sjálfstæða peningastefnu heldur eru þau undir hatti Seðlabanka Evrópu. Ég býst við að ég hafi þá svarað spurningunni um hæfisskilyrðið.

Ég vil líka benda á, þar sem spurt hefur verið um peningastefnunefndir og hvernig þær eru skipaðar, að hlutfall þeirra sem eru innan bankanna og þeirra sem eru utan er afar mismunandi. Kostir þess að peningastefnunefndarmenn séu innan bankans hafa einkum verið taldir að með þeim hætti sé unnt að ná fram meiri skilvirkni og samræmi í ákvarðanatöku auk þess sem því hefur verið haldið fram að áreiðanleiki þeirra ákvarðana sem teknar eru þykir meiri. Hefur þetta einkum þótt heppilegt á tímum mikilla breytinga og einnig í litlum löndum þar sem hæfir sérfræðingar sem geta tekið þessi störf að sér kunna að vera af skornum skammti, m.a. vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra. Gildi þess að sérfræðingar utan Seðlabankans sitji í peningastefnunefndinni hefur verið að það hefur þótt kostur að þannig verði tryggt betur að menn með ólík sjónarmið komi að ákvarðanatöku sem getur aukið trúverðugleik þeirra ákvarðana sem teknar eru, sem er afar mikilvægt og markmið þeirrar tillögu sem sett er fram í frumvarpinu er að sameina þessi sjónarmið eins og unnt er.

Auðvitað má skoða það sem hér hefur líka verið rætt hvort rétt sé að seðlabankastjóri eigi að skipa peningastefnunefndina að fenginni umsögn forsætisráðherra eða hvort rétt væri að forsætisráðherra skipaði þá sem kæmu utan Seðlabankans, en lagt er til að þeir geti hvort sem er verið innlendir eða erlendir en þessu má auðvitað velta fyrir sér og skoða í nefndinni sem fær málið til umsagnar.

Kallað hefur verið eftir því af hverju hér eru ekki settar fram breytingar á peningastefnunni. Það vannst hreinlega ekki tími til að skoða það þótt vera megi að ástæða sé til þess og ekkert útilokar að skoðað verði í framhaldinu hvort rétt sé að skipa starfshóp sem athugi það. En ég vil benda á, af því að það eru aðallega sjálfstæðismenn sem kalla eftir breytingum á peningastefnunni, að ég hygg að hugmyndir um að skipa slíkan hóp hafi verið á borði fyrrverandi forsætisráðherra í eitt til eitt og hálft ár. Ekkert varð úr því en vera má að ástæða sé til þess í framhaldinu að skoða það.

Ég held að hv. þm. Ólöf Nordal hafi spurt um staðgengil seðlabankastjóra. Rétt er að ekki var kveðið á um það í þessu frumvarpi og vel getur verið að skoða þurfi hvort setja þurfi það inn í frumvarpið en ég tel eðlilegt að staðgengill seðlabankastjóra komi þá úr röðum peningastefnunefndar og sé einn af þeim fjórum fulltrúum sem þar eru, þ.e. tveir innan Seðlabankans og tveir utan, staðgengillinn komi úr þeirra hópi og ef staðgengil þyrfti til lengri tíma mætti nota það ákvæði sem er í Seðlabankanum núna um að heimilt sé að skipa slíkan staðgengil.

Ég tel mig hafa svarað því sem fram kom varðandi hæfiskröfurnar sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á og reyndar fleiri. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi þetta líka og ég tel mig hafa svarað því. Síðan er spurt um bankaráðið. Ekki gert ráð fyrir breytingum á því hvernig það er skipað en gert er ráð fyrir því að verði frumvarpið að lögum verði skipað bankaráð en þá verður að horfa til þess að bankaráðið er með þeim hætti að það tekur ekki ákvarðanir um beitingu á stjórntækjunum heldur er það seðlabankastjóri og peningastefnunefndin.

Ég tel mig hafa svarað flestum þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. Mikið hefur verið rætt um bréfið sem ég sendi seðlabankastjórunum. Ég tel að með eðlilegum hætti hafi verið staðið að því máli. Ég taldi brýnt að láta bankastjórana vita að til stæði, eins og þeir hefðu reyndar átt að vita, að leggja fram frumvarpið sem við ræðum en meginástæða þess er, eins og ég hef sagt, að mannabreytingar við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu eru mjög mikilvægar einar og sér og skipta máli fyrir það traust og þann trúverðugleika sem við verðum að ná fram sem fyrst. Ég vísa því á bug sem hér hefur ítrekað verið haldið fram að ég hafi með þessu bréfi verið að hóta bankastjórunum, eins og það var orðað, með lagasetningu. Allir máttu vita að eitt af fyrstu verkefnum núverandi ríkisstjórnar yrði frumvarp um endurskipulagningu á Seðlabanka Íslands.

Af því að hér hefur verið gagnrýnt að ég hafi gert þetta bréf opinbert vil ég vitna til upplýsingalaganna. Þegar óskað er eftir slíkum bréfum, sem ég hafði ekki frumkvæði að, ber mér samkvæmt upplýsingalögum skylda til að afhenda þau.

Af því að hv. þm. Björn Bjarnason minntist á bankastjóra Landsbankans þar sem bankaráðið ákvað að í stað núverandi bankastjóra tæki Ásmundur Stefánsson við og staðan verði ekki auglýst fyrr en í haust, þá vita allir og líka bankaráð Landsbankans að stefna ríkisstjórnarinnar var sú að störf bankastjóra í ríkisbönkunum yrðu auglýst. Bankaráðið mátti því vita að með því að fara að með öðrum hætti væri gengið gegn stefnu ríkisstjórnarinnar og það er ástæða þess að ég tel mikilvægt að þessi ákvörðun verði endurskoðuð.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, tel ég mig hafa svarað flestum þeim spurningum sem fram hafa komið og ég vona að málið fái góða umfjöllun í þeirri nefnd sem um það fjallar en engu að síður legg ég áherslu á það og ríkisstjórnin í heild að þetta mál nái sem fyrst fram að ganga.