136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er mikilvægt að þetta hafi komið fram og til bóta hefði verið ef það hefði komið fram í frumvarpinu sjálfu á hvaða fyrirmyndum og forsendum var byggt þegar þær tillögur voru gerðar sem finna má í frumvarpinu. Nú er þetta komið fram, eins og ég segi, svo langt sem það nær og mun verða tekið til skoðunar í þeirri nefnd sem um málið fjallar og þá gefst líka tækifæri til að vega og meta þessa mismunandi kosti vegna þess að í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra er ekki að finna slíkan samanburð. Þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi komið inn á það í örfáum orðum, verðum við enn þá að segja að því er ósvarað hvers vegna sú leið er farin sem þarna er lögð til en ekki einhverjar aðrar.

Eins og hæstv. forsætisráðherra benti á er fyrirkomulag þessara mála mjög ólíkt eftir löndum. Auðvitað verður líka kallað eftir því í hv. nefnd (Forseti hringir.) hvaða sérfræðingar komu að málum því mikilvægt og nauðsynlegt er (Forseti hringir.) fyrir nefndina að fá tækifæri til að ræða við þá þegar farið verður í einstök efnisatriði málsins.