136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki sé rétt, eins og mér fannst koma fram í orðum hv. þingmanns, að ég hafi talið að mörg atriði þyrfti að skoða í frumvarpinu. Ég nefndi aðeins hverjir mundu skipa þessa peningastefnunefnd. Það var eitt af því sem ég nefndi. Ég man ekki eftir að ég hafi nefnt fleiri atriði. Ég fór yfir rökin fyrir þeim hæfisskilyrðum sem kallað er eftir í 3. gr. en ég held að ég hafi ekki nefnt sérstaklega neitt annað sem ég teldi að þyrfti að skoða. En málið er auðvitað í höndum þingsins og nefndarinnar og hún ákveður fyrst og fremst hvaða atriði koma sérstaklega til skoðunar eða hvaða atriðum í frumvarpinu verður breytt.

Að því er varðar hvort kallað verði eftir sjónarmiðum Seðlabanka Íslands þá verður það ábyggilega gert þó að málið og til hvaða aðila er leitað sé í höndum nefndarinnar. (Forseti hringir.) Ég hef ekki tíma til að svara síðara atriðinu en ég mun gera það í seinna andsvari mínu.