136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mitt mat er að það sé ekki nauðsynlegt að gera það vegna þess að ég vitnaði til þess að við vinnslu frumvarpsins lá m.a. fyrir skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að vísu er hún tveggja ára gömul, þar sem gerður er samanburður á stjórnskipulagi í bankakerfum víða um heim. Ég tel að með þeirri leið sem við erum að feta núna með þessu frumvarpi munum við komast í hóp þeirra þjóða sem eru með svona skipulag þar sem víða hefur verið tekin upp þessi peningastefnunefnd sem ég tel að sé grundvallaratriði í efnahagsstjórn. Ég á ekki von á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari að gera einhverjar athugasemdir við það eða hafa skoðun á því nákvæmlega hvaða stefnu við tökum upp. Ég á ekki von á öðru en það teljist jákvætt af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar við erum að taka upp svipað stjórnskipulag og gildir víða um heim.