136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

breytingar á bankaráðum viðskiptabankanna.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá fyrrv. forsætisráðherra. Það er auðvitað ekki óeðlilegt að það sé skoðað við breytt valdahlutfall hvort bankaráðunum verði breytt og hv. þingmanni á ekki að koma það á óvart að það sé yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar að auglýsa eigi í stöður bankastjóra. Það hefur alltaf legið fyrir. Og þegar fyrir lá að út af því yrði brugðið með ákveðnum hætti var það auðvitað skoðað hjá ríkisstjórninni og ráðherrum hvort ekki væri rétt að láta vita í bankaráðinu að eðlilegt væri að þessi ákvörðun yrði endurskoðuð. Ég legg áherslu á að stjórnkerfið verði með þeim hætti að stöður eins og bankastjórastöður, t.d. staða seðlabankastjóra, verði auglýstar. Ég kann illa við þessa orðnotkun hjá hv. þingmanni að tala um að „bola út“ eða „hreinsa út“. Þetta er bara eðlileg stjórnsýsla.