136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

breytingar á bankaráðum viðskiptabankanna.

[15:08]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að spyrja um bankastjórastöðuna. Ég lét í ljósi skoðun mína á því máli en ég var að spyrja um bankaráðin. Á að láta bankaráðin, sérstaklega formenn bankaráðanna, fara úr núverandi störfum? Á að bola þeim út eins og búið er að bola út tveimur ráðuneytisstjórum í Stjórnarráðinu, eins og búið er að reyna að gera gagnvart bankastjórum Seðlabankans, eins og búið er að gera gagnvart stjórn lánasjóðsins og greinilega gagnvart fleirum í kerfinu? Hvað er ætlunin að gerist varðandi það ágæta fólk sem hefur unnið þarna störf sín af mikilli samviskusemi, trúmennsku og prýði í bankaráðunum og er núna með fangið fullt af vandamálum til að leysa í umboði ríkisstjórnarinnar eins og allir þekkja?