136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

[15:22]
Horfa

Sigurður Pétursson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svörin, en vil jafnframt vekja athygli á einu. Fyrir örfáum missirum síðan var samgönguframkvæmdum, vegaframkvæmdum, á Vestfjörðum frestað vegna þess að í landinu var svo mikið góðæri og þensla þó svo að Vestfirðingar hafi ekki orðið varir við það.

Nú er hins vegar samdráttarskeið, jafnvel kreppa, og þá er hætta á því að samgöngur verði dregnar saman bæði á Vestfjörðum og víðar. Hvenær er þá rétti tíminn til að gera úrbætur á samgöngumálum á Vestfjörðum ef ekki er hægt að gera það í góðæri og ekki í kreppu?

Ég fagna því að hér er alla vega verið að vinna að réttri leið og að einhvern tímann, innan ekki margra ára, verði komnar vegabætur á Vestfjörðum sambærilegar við aðra landshluta.