136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

áform um skattahækkanir.

[15:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um ástand efnahagsmála á þessum tímum og þá erfiðleika sem fjölskyldurnar í landinu eiga við að etja. En þó er ljóst að vextir á Íslandi eru þeir hæstu sem þekkjast í vestrænum heimi. Verðbólgan er himinhá. Krónan er hrunin. Þúsundir hafa misst vinnuna og aðrir þurft að taka á sig verulegar launalækkanir.

Ljóst er að mörg heimili og fjölskyldur í landinu eiga við greiðsluvanda að etja og aðrir sjá fram á að verða í verulegum vanda með lán sín í komandi framtíð. (Gripið fram í.) Já, ég hef áhyggjur af því, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, og held að hæstv. ríkisstjórn ætti að hafa það líka. En einhvern veginn virðist mér sem hún ætli að loka augunum fyrir vandanum vegna þess að nú hafa komið fram yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum að við þessum aðstæðum ætli ríkisstjórnin að bregðast með því að hækka skatta í landinu.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur lýst því yfir að hann sé fylgjandi því að skattar verði hækkaðir og í sama streng hefur hæstv. forsætisráðherra tekið. Nú síðast hafa komið fram yfirlýsingar frá Indriða H. Þorlákssyni, nýjum ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, að honum þyki eðlilegt að skattar verði hækkaðir.

Ég tel að þetta séu skelfilegar fréttir fyrir fólkið í landinu að ofan á öll áföllin ætli ríkisstjórnin að ganga lengra í því að taka stærri hluta af launum fólks í sinn vasa. Því hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra um skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar. Hversu mikið hyggst ríkisstjórnin hækka skattana og að hverjum munu skattahækkanirnar beinast? Verður lagður á hátekjuskattur? Við hvaða tekjur verður hann miðaður?