136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var árið 1999 sem mikill meiri hluti þingmanna, 37 gegn 7, studdi þingsályktunartillögu um að hefja hvalveiðar við Ísland aftur. Það má segja að það hafi ákveðið leiðina sem nú er fylgt eftir í þessu máli. Þessari ákvörðun Alþingis hefur ekki verið breytt og það hefur ekkert komið fram á þinginu þess efnis að draga þessa ákvörðun í efa.

Það var síðan við inngöngu Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju árið 2002 sem hægt var að fara að fylgja þessari þingsályktunartillögu eftir þannig að öll lögformleg leið væri rétt. Þjóðir innan Alþjóðahvalveiðiráðsins reyndu með óviðeigandi vinnubrögðum að koma í veg fyrir inngöngu okkar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir löglegar veiðar í framtíðinni. Það var því ekki fyrr en árið 2003 sem við gátum hafið veiðar og þá hófust takmarkaðar vísindaveiðar því með inngöngu sinni gaf Ísland þá yfirlýsingu að atvinnuveiðar hæfust ekki fyrr en árið 2006. Það ár voru síðan gefin út atvinnuleyfi til atvinnuveiða á langreyði og hrefnu.

Ein rök andstæðinga hvalveiða sem margir lögðu trúnað á eru þau að ekki sé markaður fyrir þessar afurðir og því sé verið að fórna öðrum hagsmunum með fyrirhuguðum veiðum. Ég hef aldrei skilið þessi vitleysisrök. Hverjum dettur það yfirleitt í hug að einhverjir ætli að eyða hundruðum milljónum króna í viðhald og uppbyggingu atvinnurekstrar ef þeir telja sig ekki geta selt þær afurðir sem framleiðslan gefur þeim? Eftir að atvinnuveiðar fóru fram árið 2006 tók við langur tími heilbrigðisrannsókna á hvalafurðum sem farið hafa fram á mörgum mismunandi rannsóknarstofum. Niðurstaðan er skýr: Þessar afurðir standast allar kröfur sem gerðar eru um heilbrigði matvæla. Þetta ferli hefur tekið langan tíma en eftir að því lauk í haust komst hvalkjöt frá Íslandi á markað í Japan ásamt sendingu frá Noregi eftir fullkomlega löglegum leiðum. Það er því ekki fyrr en nú í vetur sem aðstæður og ástæður eru til að gefa út atvinnuleyfi sem gera ráð fyrir útflutningi afurða. Því má fullyrða að fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafi beitt öllum varúðarreglum í nálgun sinni á þetta mál. Hann lagði sig fram um að taka tillit til allra sjónarmiða sem upp hafa komið í ferlinu og stjórnvöld stóðu fyrir ítrekuðum rannsóknum á mögulegum áhrifum veiðanna á annað atvinnulíf á Íslandi. Þetta var gert vegna þeirrar óvissu sem skapast hefur, m.a. vegna skoðana aðila innan ferðaþjónustunnar.

Nokkrar skýrslur um möguleg áhrif hvalveiða á ímynd Íslands, íslenska ferðaþjónustu og útflutning á íslenskum afurðum hafa verið gerðar síðan hvalveiðar hófust að nýju árið 2003. Í skýrslu samgönguráðherra um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands, sem unnin var árið 2004 samkvæmt beiðni hv. þm. Marðar Árnasonar o.fl., kemur m.a. fram að umræddar hvalveiðar hafi ekki skaðað ímynd landsins sem ferðamannalands á stærstu markaðssvæðum þess eða meðal helstu markhópa á þeim tíma sem liðinn er frá því að þær hófust árið 2003. Einnig kemur fram að Ísland náði hlutfallslega meiri árangri en flest önnur lönd í fjölgun ferðamanna á árinu 2004 eða ári eftir að umræddar hvalveiðar hófust. Í skýrslunni er vitnað í umsögn skrifstofu ferðamálaráðs í Bandaríkjunum þar sem segir að eins og málin standi í dag sé ekki hægt að sjá að hvalveiðar okkar hafi áhrif á markaðssetningu landsins. En viðamesta skýrslan sem unnin hefur verið fyrir opinbera aðila var unnin fyrir íslenska ferðaþjónustu og samgönguráðuneytið árið 2007. Hún tók til kannana í fimm af okkar helstu viðskiptalöndum og í heildina voru um 5 þúsund manns í þessum löndum spurðir. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að hvalveiðar í vísinda- og atvinnuskyni hafi ekki haft merkjandi neikvæð áhrif á ímynd landsins og íslenska ferðaþjónustu. Í skýrslu nefndar forsætisráðherra um ímynd Íslands segir að hægt sé að draga þá ályktun að hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni væru ólíklegar til að hafa mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu í bráð.

Eins og af þessu má sjá hafa íslensk stjórnvöld lagt sig fram um að skoða möguleg áhrif hvalveiða á aðra hagsmuni okkar. Niðurstaða þeirra skýrslna sem ég hef rakið og reynsla okkar af hvalveiðum er með sama hætti og annarra sem þær stunda, og á ég hér sérstaklega við Norðmenn, Færeyinga og Japani. Það er yfirgnæfandi meiri hluti fylgjandi hvalveiðum meðal íslensku þjóðarinnar. Það á einnig við um afstöðu meiri hluta þingmanna á Alþingi, ekki verður betur séð en þeir séu sammála niðurstöðu fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.

Eins og fram hefur komið í auglýsingum undanfarið er mikil samstaða meðal aðila í sjávarútvegi og víðar um að hefja veiðar. Þær tafir sem nú eru orðnar á málinu vegna boðaðrar endurskoðunar hæstv. sjávarútvegsráðherra geta haft alvarlegar afleiðingar við undirbúninginn. Hann tekur tíma. Eftir alla umræðuna undanfarið um aukið lýðræði og nauðsyn þess að hlustað sé á þjóðina spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort ekki sé tími til kominn að láta þann mikla meiri hluta sem fylgjandi er hvalveiðum njóta vafans ef einhver er.