136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[15:49]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í þessu máli liggja allar helstu staðreyndir ljósar fyrir. Í fyrsta lagi liggur fyrir að við veiðar á þessum spendýrum verði farið að einu og öllu eftir ráðgjöf vísindamanna.

Í öðru lagi liggur fyrir að Alþingi hefur samþykkt ályktun um að hvalveiðar verði hafnar. Skýr meirihlutavilji Alþingis liggur fyrir, samþykkt með 37 atkvæðum gegn 7.

Í þriðja lagi liggja fyrir yfirlýsingar frá þingflokkum og þingmönnum núna þannig að ljóst er að eigi færri en 40 þingmenn úr öllum flokkum styðja hvalveiðar.

Í fimmta lagi liggur fyrir að hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra greiddi atkvæði gegn meginefni þingsályktunar Alþingis árið 1999. Hann var einn af átta þingmönnum sem skipaði sér á bekk gegn hvalveiðum.

Þá liggur líka fyrir að hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra er að reyna að bregða fæti fyrir málið. Hann er að reyna að eyðileggja málið með því að vefengja valdheimildir ráðherra og tefja framgang þess þannig að sem minnst verði úr efndum.

Niðurstaðan af þessu er að það sem hæstv. ráðherra gerir er að ganga gegn þingræðinu. Hann er að bjóða byrginn grundvallarreglu íslenskrar stjórnskipan. Hann er ráðherra gegn þinginu. Það er mjög alvarlegt mál og það hljóta að íhuga þeir þingmenn sem hafa með yfirlýsingum sínum (Forseti hringir.) gert ráðherranum kleift að sitja í embætti.