136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[16:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil biðja hv. þm. Grétar Mar Jónsson að lasta ekki hundasúruna því að hundasúra með sykri og rjóma er hreinn herramannsmatur. (Gripið fram í: … hval.) Já, og getur sjálfsagt verið ágæt með súru rengi ef út í það er farið.

Ég taldi mig tala nokkuð skýrt í fyrri ræðu minni að undir lok þessarar viku yrðu öll gögn komin í hús og fundum lokið við málsaðila. Með öðrum orðum á mannamáli sagt, málið er þá orðið tækt til afgreiðslu á grundvelli vandaðrar og ábyrgrar stjórnsýslu.

Tillagan frá 1999 var að sjálfsögðu samþykkt hér eins og allir vita og hefur gilt síðan. En þá má spyrja: Hvernig stóð á því að veiðar hófust ekki fyrir en mörgum árum síðan? Var þá ekki brotinn þingviljinn? Hverju sætir að … ? (Gripið fram í: … Alþjóðahvalveiðiráðinu. Hlustaðu á það sem er verið að tala hérna.) Ég hélt að fyrirspyrjandi hefði lokið máli sínu og ég ætti að fá þessar tvær mínútur.

(Forseti (KÓ): Hljóð í salnum.)

Hverju sætir að sú ríkisstjórn dró málið árum saman? Ætli það hafi ekki verið einhver ástæða fyrir því? Hverju sætir að engar veiðar á langreyði fóru fram síðastliðið sumar? Voru ekki einhverjar ástæður fyrir því? Var það brot á þingviljanum? Ég held að hv. þingmenn verði bara að hafa staðreyndir í huga og átta sig á að þetta mál hefur af hálfu framkvæmdarvaldsins á undanförnum árum ekki verið metið þannig að það væri bara einfalt og rakið mál að hefja atvinnuveiðar á hval, bæði stórum og smáum, í stórum stíl. Það gerðu ekki fyrri ríkisstjórnir. Og hér fara nú þingmenn mikinn sem ýmist sátu í þeim ríkisstjórnum eða studdu þær.

Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að af minni hálfu verður hér eftir stunduð ábyrg og vönduð stjórnsýsla í þessu máli. Það verður þannig. Tvennt vil ég nefna sérstaklega. Hið fyrra er að auðvitað er áfram mikil óvissa um markaðsmálin. Þau eru í sérstakri stöðu vegna séreðlis nýtingar á sjávarspendýrum sem eru sameiginleg auðlind og um gilda ýmsar takmarkanir í alþjóðlegum viðskiptum. Hið síðara er að umtalsverðir opinberir fjármunir hafa gengið til þessara rannsókna, á fjórða hundrað milljónir króna hafa runnið úr opinberum sjóðum til hrefnurannsókna á árunum 2003–2008. Þar af 128 millj. kr. til Samtaka hrefnuveiðimanna. Hér eru líka umtalsverðir (Forseti hringir.) opinberir fjármunir á ferð sem rétt er að hafa í huga. Niðurstöðu er að vænta, herra forseti, (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) í þessu máli innan skamms, innan tveggja vikna í öllu falli.