136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[16:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Grétari Mar Jónssyni um að þetta er skemmtilegt mál og þetta er mál sem er hægt að tala mikið og lengi um og sjávarútvegsmálin almennt. En hv. þingmaður tekur í raun upp annað mál en það sem undir er þótt tengt sé frumvarpi um frjálsar handfæraveiðar, ef ég má kalla það svo. Það er álit mannréttindanefndarinnar og sú niðurstaða sem þar varð. Ég sagði það á sínum tíma og við í okkar flokki að við vildum að það álit yrði tekið mjög alvarlega af íslenskum stjórnvöldum. Við lögðum mikla vinnu í að undirbúa það sem við töldum vera eðlileg viðbrögð og sendum frá okkar ítarlega greinargerð um það mál á vordögum þegar það mál var á ferðinni. Það voru að mínu mati miklum mun efnislegri og viðameiri viðbrögð af okkar hálfu en þau sem ríkisstjórnin síðan sendi frá sér.

Nú verð ég hreinskilnislega að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma til að fara vel ofan í það hvar það mál er á vegi statt. Það hafa einhverjar bréfaskriftir verið í gangi, ef ég veit rétt, milli íslenskra stjórnvalda og mannréttindanefndarinnar og ég þarf að setja mig betur inn í það. Aðrir hlutir hafa haft svolítinn forgang að undanförnu varðandi sjávarútveg. Þá er afkoma greinarinnar því miður heldur bágborin og viðræður við LÍÚ og fleiri aðila um það mál. Það er loðnuvertíðin sem nú er í höndum okkar og örlög hennar að ráðast og svo kannski hvalamál og ýmsir slíkir hlutir þannig að ég þarf aðeins að fá þá betri tíma til að setja mig betur inn í það hvar þessi samskipti eru að öðru leyti á vegi stödd.

Varðandi bótaþátt málsins mundi ég reikna með að þau mál væru á mínum herðum en undir öðrum hatti. Ég geri þá ráð fyrir því að það snúi að fjármálaráðherra og ríkislögmanni þar sem venjan er þegar mál eru sótt gegn ríki eða málin snúast um bótagreiðslur af því tagi en það þarf ég sömuleiðis að kynna mér.