136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:23]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Grétar Mar Jónsson velja sér frekar atriði til að hafa á hornum sér heldur en hvetja til að við sameinuðumst um að finna greiða leið fyrir þetta mál sem við erum þó að tala saman og mjög vel um. Ég vil leggja áherslu á að það að geta opnað þó ekki sé nema litla glufu fyrir þessar smábátaveiðar meðfram ströndum landsins þá opnar það líka upp á nýliðun. Það opnar fyrir að það unga fólk sem býr á þessum stöðum geti alist upp og tengst og lært og náð í lífsreynslu í sjósókn þó í smáum stíl sé fyrst.

Ég býst við að við flestir þingmenn sem hér erum núna eigum það sameiginlegt að hafa sem ungir menn verið á svona trilluveiðum. Þannig kynntumst við sjósókn og lærðum á lífríki hafsins. Hvað er okkur mikilvægara á þessum tímum nú heldur en að styrkja þessi bönd, styrkja bönd á milli fólksins og náttúruauðlindanna, styrkja böndin á milli þess að sækja og nýta og vernda þessar auðlindir okkar til hagsbóta fyrir íbúana á strandsvæðunum? Það á að vera markmið okkar að gera það. Rétt fólksins í sjávarbyggðunum til að nýta auðlindirnar meðfram ströndum landsins verðum við að færa því til baka. Hvert skref í þeim efnum tel ég mjög mikilvægt og að eigi að reyna að vinna að, herra forseti.