136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:44]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég harma að snúið skuli út úr þessu máli með þessum hætti. Þetta er nú eiginlega grátbroslegt og koma svo með þá tuggu að hér á árum áður þegar skrapdagakerfi var við lýði hafi menn mokað aflanum upp og sturtað honum á frystihúsgólf og annað. Síðan 1985, þegar fiskmarkaðir byrjuðu á Íslandi, hefur aflameðferð batnað verulega og öll meðferð á afla, með karavæðingu í flotanum, sem varð líka eftir þann tíma, með krapaísun og ýmsu öðru. Gerbreyting hefur orðið á allri meðferð um borð í skipum, út af gámaútflutningi og öðru hefur miklu betur verið farið með afla. Það hefur ekki tengst fiskveiðistjórnarkerfinu. Það hefur verið með þeim hætti að menn hafa fengið meira verð fyrir fiskinn og þess vegna hefur þetta verið gert. Þetta er bara útúrsnúningur og sorglegt að hv. þingmaður skuli beita útúrsnúningum í þessari umræðu.