136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki útúrsnúningur, hér er einungis gerð tilraun til að átta sig á hvernig það kerfi sem hér er um að ræða mundi virka væri því komið á.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi, krapakerfin, fiskikörin o.s.frv., þ.e. bætta meðferð á afla um borð í fiskiskipum, þá má færa fyrir því mjög gild rök, tel ég, að einmitt sú staðreynd að við fórum út í kvótakerfið gerði það að verkum að menn vissu að þeir höfðu takmarkaðan afla, þeir voru að hámarka gæðin á þeim afla sem veiddist, lágmarka kostnaðinn sem til féll til að ná í þann afla. Með öðrum orðum, menn fóru úr því að keppa hver við annan um hver væri fljótari að veiða, hver gæti meira, hver gæti veitt hraðar og fóru í það að keppa um hver gæti gert mest úr aflanum, hver gæti farið best með aflann, hver gæti fjárfest í bestu tækni til að fara best með aflann og hver gæti sótt hann með sem minnstum tilkostnaði. Það var það sem breyttist við að taka upp séreignarkerfi og fara úr ólympískum kappveiðum, það er lykilatriði. Þetta frumvarp opnar, því miður, akkúrat inn á þá liðnu tíð sem við vorum að komast út úr.