136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:51]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að á árum áður var slegist um sóknargetuna. Það voru reyndar kenningar frá sérfræðingum í Háskóla Íslands og Morgunblaðinu en það voru aldrei færð rök fyrir því. Það er eins og hægt sé að ákveða hvað menn veiði mörg tonn á hverjum stað og hverjum klukkutíma. Þetta er náttúrlega galið í veiðimannasamfélagi. En þessi bókhaldsvinna lá fyrir og var skoðun sérfræðinga úr Háskóla Íslands og þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins, en aldrei færð rök fyrir þessu og reynslan aldrei dregin fram.

Þó er ástæða til að minna á að það er margt sem þarfnast svona umræðu, það er margt sem þarf að laga í kerfinu, lagfæra þarf veiðihlutfallið og auka veiðiskylduna hjá þeim sem hafa kvótann með höndum. Það þarf að útrýma bílskúrsútgerðarmönnunum, sem eru líklega flestir á höfuðborgarsvæðinu og hafa aldrei migið í saltan sjó. (Forseti hringir.) Gera þarf úttekt á einyrkjunum, jafna aðstöðu landsbyggðarinnar varðandi flutningskostnað og þannig mætti lengi telja, virðulegi forseti.