136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:52]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nefnilega þannig þegar við vorum með opinn aðgang að þá fengum við dæmi um hvernig nákvæmlega svona kerfi sem hér er lagt upp með virka, vegna þess að þá eykst sóknin, hún bara eykst og eykst og allur afraksturinn af auðlindinni fer í að borga fyrir meiri sókn. Það var sú þróun sem við horfðum á og sáum hvernig gekk fyrir sig á Íslandsmiðum eftir að við náðum sjálf ákvörðunarvaldi og fullu forræði yfir fiskimiðum okkar og það fór að geta borgað sig að nálgast fiskveiðarnar öðruvísi en gert var þegar útlendingar gátu veitt hér eins og þá lysti.

Hvað varðar afstöðu fræðimanna til þessa, þá er alveg rétt að ekki er skynsamlegt að taka það sem gefið að allt sé rétt sem komi þaðan. Þó held ég að útreikningar á sóknargetunni og hvernig hún þróaðist gefi okkur mjög góða mynd af þeim vanda sem við Íslendingar stóðum frammi fyrir á árum áður og höfum kannski ekki leyst endanlega, ég ítreka það. (Forseti hringir.) Ég tek undir með hv. þingmanni að þarna eru vandamál uppi, reyndar held ég að (Forseti hringir.) það virki þannig að ef við aukum veiðiskylduna muni kvótaleigan hækka, þar er vandinn er sá.