136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá ástæðu til að ræða þau grundvallarsjónarmið sem að baki frumvarpinu liggja einfaldlega vegna þess að ef menn gera það ekki þegar lagðar eru fram breytingar á því fyrirkomulagi sem við höfum bjóðum við hættunni heim, ef við höldum þannig á málum að við spyrjum okkur ekki þessara grundvallarspurninga, að við búum til kerfi sem verður bæði götótt og óskynsamlegt. Þó að ég hafi alla samúð, eins og ég sagði í upphafi máls míns áðan, með mörgum þeim sjónarmiðum sem hér komu fram, sérstaklega hvað varðar vanda byggðanna, er ég samt þeirrar skoðunar að sá vandi verði ekki leystur með því að taka upp það kerfi sem hér er lagt til. Ég tel að þar skipti miklu meira máli t.d. heildaraflinn, ég held að hann hafi miklu meira um það að segja hver staða sjávarbyggðanna er en akkúrat það sem hér er til umræðu eða sú aðferð.

Hvað varðar möguleika manna einmitt til að veðsetja, selja o.s.frv. þá er það svo að það er mjög erfitt fyrir mig alla vega að sjá fyrir mér hvernig það leigukerfi á að ganga upp sem ég reikna með að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson muni kynna eða ræða við okkur í umræðunni á eftir, af því að vandinn er þá þessi: Ef ríkisvaldið á að leigja út veiðiheimildirnar þá fénýtir ríkisvaldið þessar heimildir og það þýðir, og er engin leið fram hjá því, hv. þingmaður, að afraksturinn af fiskveiðunum við Ísland verður ekki eftir í sjávarþorpunum, hann verður ekki eftir í kaupstöðunum, hann verður ekki eftir í höndum þeirra sem eru að búa til eða reka sjávarútvegsfyrirtækin, hann fer í ríkissjóðinn, hann fer til Reykjavíkur inn í ríkissjóðinn og verður deilt þaðan út. Ég er ekki sannfærður um að það verði byggðunum við Ísland, dreifðu sjávarbyggðunum til heilla að fara þá leið. Ég held að til séu miklu betri og miklu skynsamlegri leiðir til að styrkja byggðirnar en sú leið að flytja afraksturinn af fiskveiðunum yfir í ríkissjóð.