136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér láðist að geta þess í fyrra svari mínu varðandi það að úthlutað sé á hverju ári til útgerðarmanna. Þannig er það auðvitað ekki og það veit hv. þingmaður fullvel. Það er úthlutað á grundvelli hlutdeildar þannig að með því að heildaraflinn er ákveðinn þar með ræðst síðan hversu mikið hver og einn útgerðarmaður hefur leyfi til að veiða. Með öðrum orðum, úthlutun er ekki endurtekin frá grunni þannig að úthlutað sé einhverjum sérstökum gæðum, einungis er tekin ákvörðun um heildaraflann.

Síðan um það hvort eðlilegt sé að menn geti keypt, selt og veðsett. Fyrir því hafa verið færð heilmikil rök að bann við veðsetningu geri það að verkum að nýliðun sem margir áhyggjur af — sem ég verð reyndar að segja að ég hef ekki sérstakar áhyggjur af, ég held að þeir sem eru í útgerð séu ágætlega til þess fallnir og kalla ekkert eftir einhverjum öðrum til þess — verði mun erfiðari ef menn geti ekki notað aflaheimildir sem veðsetningu. Verðmætin mundu reyndar færast yfir á skipin og áfram þyrfti að ákveða hvernig koma ætti í veg fyrir að skipunum fjölgaði og sóknargetan ykist jafnt og þétt þannig að voði standi af.