136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:17]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er reiðubúinn, bljúgur og auðmjúkur, að setjast í kennslustund hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni um þetta því að hann hefur oftar migið í saltan sjó en ég. Mér er það ekki heilagt hvort aflamark eða sóknarmark er valið í hverju tilviki og tel að menn eigi ekki að setja þau orð inn í trúarjátninguna sína.

Það sem skiptir máli er að það sé skýr eining sem þessi úthlutun byggist á og hún getur verið hvor sem er, báðar hafa kosti og galla. Hv. þingmaður rakti galla aflamarksins. Ég hef líka heyrt fyrirlestra um galla sóknarmarksins. Það er ekki það sem skiptir máli.

Já, ég styð frumvarpið, einkum ef ekki verður að lögum frumvarpið um innköllun aflaheimilda sem sömu flutningsmenn flytja hér á þinginu. Ég vil segja það um orð hv. þingmanns um fyrri ríkisstjórn að ég er þeim á margan hátt sammála. Það er ekki nein sérstök gleði í hjörtum okkar samfylkingarmanna yfir afdrifum þessa máls, að minnsta kosti fyrir mann sem stóð fyrir utan stjórnarmyndunarviðræður og er varaþingmaður hér á þinginu. Samfylkingin fékk inn þessa setningu í andrúmsloft þar sem ekki var mikill byr í seglum því sameiginlega áhugamáls okkar hv. þm. Grétars Mars Jónssonar að breyta kerfinu til batnaðar. Síðan stóð Sjálfstæðisflokkurinn í vegi fyrir öllum breytingum á því.

Ef ekki hefði komið álitið frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefði nákvæmlega ekkert gerst í þessu máli. Ekkert hefði hreyfst í því, ekki einu sinni verið búnar til neinar greinargerðir eða nein vinna lögð í málið í sjávarútvegsráðuneytinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki áhuga á að breyta þessu fiskveiðikerfi sem hann átti nú sjálfur mestan þátt í að búa til, að Framsóknarflokknum fullkomlega (Forseti hringir.) í heiðri höfðum í því efni.