136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Margt er til í því sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði. En batnandi mönnum er best að lifa og hér ætlar að flytja ræðu á eftir hinn vörpulegi og djarfhuga forustumaður Framsóknarflokksins á Alþingi Íslendinga, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Við bíðum eftir þeirri ræðu auðvitað með miklum spenningi að vita hvaða línu hinn nýi Framsóknarflokkur — það er ekki „New Labour“ heldur „New Progressive Party“, svo að maður fari nú í ensk stjórnmál — ætlar að hafa í þessu.

Já, það er alveg rétt sem síðasti ræðumaður sagði, þetta var ekki gott í síðustu ríkisstjórn og Samfylkingin stóð sig auðvitað ekki nógu vel í því. Það er rétt að biðjast afsökunar á þeirri frammistöðu í þessum stól. Hún hefur það sér til vorkunnar að staða hennar var ekki sterk við stjórnarmyndunarviðræðurnar. Ákvæðið í stjórnarsáttmálanum er ekki mjög kröftugt. Það er linlega orðað. Sjálfstæðisflokkurinn stóð afar harkalega gegn þessu máli og þegar ástæða var til þess að rífa þetta upp þegar álit mannréttindanefndarinnar kom og við ... (GMJ: Fyrir ári síðan.) — Fyrir meira en ári þegar það kom 24. október 2007 og því var ekki svarað fyrr en 11. júní 2008. Einar K. Guðfinnsson sem hóf hvalveiðar á síðustu klukkutímum í embætti, honum tókst ekki að skipa einfalda tveggja eða þriggja manna nefnd til þess að endurskoða lögin. Þetta voru afrek Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og ekki von að hægt sé að hreyfa við þeim.

Þó vil ég minna á meðan síðustu sekúndurnar líða að innan Samfylkingarinnar var alltaf þrýstingur í þessu máli og ég þarf ekki annað en að nefna þar nafn 7. þm. Norðvest., Karls V. Matthíassonar, (Forseti hringir.) til sanninda.