136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:24]
Horfa

Sigurður Pétursson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt fyrir mann vestan af fjörðum sem kominn er hér um nokkurra daga skeið að einmitt nú skuli vera hér uppi umræða um fiskveiðistjórnarmál. Á þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag er alveg ljóst að mikill samhljómur er meðal þriggja flokka sem eiga sæti á Alþingi, þ.e. milli okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins. Allir þessir flokkar ganga út frá því ákvæði 1. gr. laga um fiskveiðistjórn, þ.e. ákvæðinu um að fiskveiðiauðlindin og fiskstofnarnir kringum landið séu þjóðareign. Allir þessir flokkar hafa sameiginlegan skilning á þeirri grein.

Þó gætti í málflutningi eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins einhvers konar efasemda um að Frjálslyndi flokkurinn gengi þar í takt við okkur jafnaðarmenn að öllu leyti. Hins vegar er það grundvallaratriði sem hér er um að ræða hvort menn gangi út frá því að auðlindin, fiskstofnarnir í sjónum, séu þjóðareign eða ekki vegna þess að kvótakerfið þegar það var sett á og eins og það þróaðist tók þann rétt frá þjóðinni og fiskveiðirétturinn var einkavæddur.

Það er hins vegar mikil ósvífni að koma hérna fram eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson gerði áðan en hann er nú eini fulltrúi kvótaflokkanna sem tekið hefur til máls í þessari umræðu. Orðanotkun hans var einmitt með þeim hætti að það vekur athygli og manni ofbauð jafnvel þegar hann talaði sífellt um séreignarrétt og eign og eigendarétt þegar hann talaði um réttinn til þess að nýta fiskimiðin kringum landið. Hvort sá skilningur sé orðinn svo inngróinn í Sjálfstæðisflokkinn að það þyki sjálfsagt að tala með slíkum hætti um það sem hingað til hefur verið talað um sem afnotarétt og nýtingarrétt, vekur ákveðinn ugg í brjósti.

Það er líka mikilvægt að fram komi hver skilningur Framsóknarflokksins í þessu máli er, þ.e. hins kvótaflokksins sem tekið hefur þátt í því að byggja upp og tryggja í sessi og nánast afsala auðlind þjóðarinnar til einstakra manna. En það kemur kannski í ljós við þessa umræðu.

Það frumvarp sem hér er lagt fram á sér hljómgrunn, held ég, langt inn í raðir Samfylkingarinnar. Umræða um slíka breytingu hefur farið fram bæði á landsfundum og í flokksfélögum Samfylkingarinnar víða um land. Það er líka ánægjulegt að heyra að sá sem hér stendur og flokksfélagi þess sem talaði hér áðan, hv. þm. Mörður Árnason, eru algerlega sammála í þessu máli, styðja þá hugmynd sem kemur fram í þessu frumvarpi og eru tilbúnir til þess að fylgja því eftir.

Eins og komið hefur fram í þessari umræðu er þetta að hluta til mannréttindamál, þ.e. að reyna að vinna til baka eitthvað af þeim réttindum sem tekin voru frá fólkinu í landinu, sérstaklega frá þeim sem búa við sjávarsíðuna sem nýtt hafa sér þann rétt að sækja fisk í sjó. Það má segja að aldagamall fæðingarréttur landsmanna hafi verið tekinn í burtu með kvótakerfinu og hvernig það hefur þróast. En um leið var líka tekinn í burtu réttur sjávarbyggðanna til sjálfsbjargar og hefur það sýnt sig í því hvernig þróun mála hefur orðið víða í sjávarbyggðum landsins síðustu 10–20 árin.

Þetta er því ekki bara mannréttindamál þótt vissulega sé þetta mannréttindamál og komi hér inn á úrskurð mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna. Það er ekki ofsagt um þann hroka sem síðasta ríkisstjórn og þeir sem stjórnuðu þar og réðu ferðinni í sjávarútvegsmálum sýndu þjóðinni og alþjóðasamfélaginu með því hvernig þeir tóku á því máli og skirrðust við að bregðast við eins og þeir að sjálfsögðu áttu að gera. Þar dugði ekki til þótt ýmsir talsmenn Samfylkingarinnar — og hér hefur verið nefndur ágætur þingmaður Karl V. Matthíasson — berðust fyrir því að þessu yrði breytt eins og mörgu öðru í sambandi við stjórn fiskveiða.

Þetta er ekki bara mannréttindamál og ekki bara byggðamál heldur er hér líka á ferðinni umhverfismál því að eins og fram hefur komið eru krókaveiðar umhverfisvænar, umhverfisvænstar allra veiða úr hafinu.

En í þessu sambandi er auðvitað vert að athuga hvernig kvótakerfið hefur þróast og hvernig það hefur verið styrkt í sessi smám saman. Það hefur gerst með tvennum hætti: Annars vegar með því að sífellt fleiri tegundir hafa verið teknar inn í kvótann og bundnar við kvótaúthlutun. Nú eru nánast allar tegundir sem veiddar eru í kringum landið bundnar í kvóta. Að mörgu leyti hefur þetta verið óþarfi. Það eru engin fiskifræðileg sjónarmið sem hafa stjórnað þarna heldur fyrst og fremst sjónarmið kvótaeigenda, þeirra sem hafa viljað veðsetja kvótann, þeirra sem hafa viljað nýta auðlindina með þeim hætti sem gert hefur verið til þess að tryggja sér fjármagn í bólgnum bönkum.

Hins vegar hefur kerfið verið fest í sessi með því að láta það ná yfir sífellt fleiri tegundir veiða og báta. Og síðast, eins og við þekkjum, var smábátakerfinu, sem var dagakerfi, útrýmt og smábátar voru teknir inn í kvótakerfið og er ekkert mjög langt síðan það var. En þar með má kannski segja að síðustu glufunni hafi verið lokað.

Það frumvarp sem hér er til umræðu byggir á því að snúa til baka, að opna aftur glufu á þeim vegg sem kvótakerfið er orðið. Ég fagna því að það sé komið fram og vona að þetta frumvarp fái framgang þó svo að auðvitað megi deila um ýmis útfærsluatriði í því, t.d. um stærð báta. 30 rúmlestir þóttu nú ansi stórir bátar í mínu ungdæmi en þykja það kannski ekki lengur en það eru samt þokkalega haffærir bátar sem eru 30 brúttórúmlestir að stærð. En þetta og ýmsar takmarkanir sem hægt er að koma við svo að hér verði ekki eins og einhver talaði um, stjórnlausar ólympískar kapphlaupsveiðar er auðvitað útfærsluatriði. Meginhugsunin í frumvarpinu er sú að opna glufu á kvótakerfið og er það vel.

Hins vegar megum við auðvitað ekki gleyma því að þó svo að við sem höfum talað gegn kvótakerfinu í 20 ár viljum fá því breytt eru tvær aðferðir til þess: Að vinda ofan af því aftur með sömu aðferðum og því var komið á, þ.e. að taka í burtu ákveðnar veiðiaðferðir, ákveðnar stærðir af bátum og opna ákveðin fiskimið. Það er önnur leiðin. Hin leiðin er sú að taka út úr því ákveðnar tegundir eins og sá ágæti hv. þm. Grétar Mar Jónsson nefndi fyrr í umræðunni, að ýmsar fisktegundir mætti taka út úr kvótakerfinu án þess að ógna þeim stofnum að neinu leyti.

Auðvitað er stóra málið að umbylta öllu fiskveiðistjórnarkerfinu. Þar höfum við jafnaðarmenn lagt fram ítarlegar tillögur sem byggja á fyrningu, á nýju kerfi með auðlindagjaldi og réttlátri útdeilingu fiskveiðiheimildanna. Kannski er það byrjunin á breytingum að hér í dag hefur komið fram að fulltrúar þriggja flokka — við eigum eftir að heyra í þeim fjórða — virðast eiga sér sameiginlega skoðun og sameiginlega sýn á það að hægt sé að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, gera það réttlátara og betra fyrir alla þjóðina. Vonandi sjáum við þann dag að þessir flokkar fái meiri hluta á Alþingi til þess að koma því í verk.