136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[18:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Grétars Mar Jónssonar var bara með þeim betri sem ég hef heyrt um sjávarútvegsmál í lengri tíma hér á vettvangi þingsins enda talaði hv. þingmaður stutt og var nokkuð málefnalegur.

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Samfylkingarinnar Sigurður Pétursson fór hér mörgum fögrum orðum um stefnu eigin flokks í sjávarútvegsmálum og hvað sá flokkur hefði verið einarður í því að koma fram breytingum í því vil ég benda hv. þingmanni á þann ríkisstjórnarsáttmála sem Samfylkingin gerði við Sjálfstæðisflokkinn.

Ég ætla að lesa upp úr þessum sáttmála, (Gripið fram í: ... fyrir okkar hönd þá.) með leyfi forseta:

„Gerð verður sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða.“

Þetta var það sem Samfylkingin náði fram með Sjálfstæðisflokknum. En þess bera að geta að á tuttugu mánuðum var þessi nefnd ekki skipuð. Það er rétt sem hv. þm. Mörður Árnason benti hér á áðan í ágætri ræðu að auðvitað ber að afsaka þetta reyndar eins og svo margt annað hjá síðustu ríkisstjórn sem einkenndist af ákvarðanatökufælni í mörgum mikilvægum málum. Við erum að ræða um mjög stórt mál hér sem snertir sjávarútveginn og af því að hv. þm. Sigurður Pétursson talaði um kvótaflokkana tvo og átti þá við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk þá vil ég benda hv. þingmanni á að A-flokkarnir, fyrirrennarar Samfylkingarinnar, komu nú aldeilis að stjórn sjávarútvegsmála í fyrri ríkisstjórnum. Ég veit ekki betur en að Samfylkingin sé nýkomin úr slíku stjórnarsamstarfi þar sem engar breytingar voru gerðar á kvótakerfinu. Ég held því að við þurfum að gæta sannmælis í þessari umræðu um það hverjir umræddir kvótaflokkar eru því að langflestir íslenskir stjórnmálaflokkar að Frjálslynda flokknum undanskildum — því að nú er Vinstri hreyfingin – grænt framboð komin í stjórn — hafa komið að kvótakerfinu með einum eða öðrum hætti.

Hæstv. forseti. Á þessum síðustu tímum hefur vægi sjávarútvegsins fyrir íslenskt samfélag aldrei verið meira. Ég ætla að segja það fyrir mína parta hér að ég mun ekki taka þátt í því að standa í einhverjum kollsteypum á íslenskum sjávarútvegi enda held ég að enginn stjórnmálaflokkur vilji það. (Gripið fram í.) Við framsóknarmenn höfum talað af ábyrgð í málefnum sjávarútvegsins og ég vil upplýsa hv. þingmenn um að á síðasta flokksþingi okkar var ákveðið að flokkurinn mundi fara í sérstaka skoðun á stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum og reyndar held ég að allir flokkar þyrftu að gera það í ljósi þeirra aðstæðna og breytinga sem hafa átt sér stað á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins á síðustu vikum og mánuðum.

Á síðasta kjörtímabili barðist Framsóknarflokkurinn fyrir því í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána og það skal alveg viðurkennt hér að Framsóknarflokkurinn náði því ekki fram í því stjórnarsamstarfi frekar en Samfylkingin gerði í sínu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að koma inn stjórnarskrárbundnu ákvæði um að auðlindir sjávar ættu að vera í þjóðareign. Ég hef hins vegar trú á því að við munum ná samstöðu á Alþingi, að minnsta kosti meiri hluti Alþingis, um að slíkt ákvæði komist inn í stjórnarskrána sem er mjög mikilvægt að mínu viti því að hér er náttúrlega um framtíðarauðlind að ræða, auðlind sem mun standa undir stórum hluta af verðmætasköpun í íslensku samfélagi því að á þeim tímum sem við lifum núna, á tímum samdráttar þurfum við tekjur til þess að standa undir öflugu velferðarkerfi auk þess sem sjávarútvegurinn skapar fjölmörg ný störf.

Ég vil benda á eitt hér í umræðunni um sjávarútvegsmál. Ég skal viðurkenna að ég var ekki viðstaddur fyrri hluta umræðunnar þar sem ég þurfti að vera á fundi. Ég veit ekki hvort mikið hefur verið rætt um málefni byggðakvótans í þessari umræðu, sem er um 10 þúsund tonn. Það er nú ekkert annað. Stjórn byggðakvótans hefur verið með þeim eindæmum að á velflestum stöðum þar sem honum hefur verið úthlutað er allt bandvitlaust, vil ég segja, út af því hvernig staðið hefur verið að því og síðast en ekki síst ef við horfum á þetta fiskveiðiár sem nú er hálfnað þá hefur sjávarútvegsráðherra ekki enn auglýst byggðakvótann þannig að sjómenn og smábátasjómenn gætu farið að veiða hann. Það er náttúrlega mjög slæmt og það segir okkur að það er eitthvað sem gengur ekki upp í því hvernig menn hafa haldið á málefnum byggðakvótans sem er um 10 þúsund tonn þannig að það er lag í fiskveiðistjórnarkerfinu eins og það er í dag að skoða ýmsa hluti. Eins og ég hef sagt þá er Framsóknarflokkurinn á leiðinni í mikla vinnu og ég bið hv. þingmenn um að sýna nýrri forustu Framsóknarflokksins og þeirri ákvörðun sem Framsóknarflokkurinn tók á flokksþinginu það umburðarlyndi gefa flokknum tækifæri að skýra sína sýn á stöðu sjávarútvegsmála.

Hvað varðar frumvarpið sem við ræðum hér þá þarf að skoða ýmislegt í því, til að mynda, þ.e. ef þetta frumvarp yrði að lögum, hve mörg þúsund tonn yrðu veidd samkvæmt þeim nýju reglum sem í gildi yrðu því að ég hef ekki verið talsmaður þess að við höfum algjört stjórnleysi í sókninni gagnvart auðlindinni og ég held að velflestir flokkar hér á þingi og allir flokkar vilji einhverjar takmarkanir á því sviði og við þyrftum að gera okkur grein fyrir því hvað slík opnun mundi þýða. (Gripið fram í.)

Ég vil segja það að lokum, hæstv. forseti, að hér er um að ræða ákveðna opnun sem hv. þingmenn Frjálslynda flokksins eru að mæla fyrir. Ég tel að það þyrfti að skoða mjög gaumgæfilega ef við færum í slíkt. En ég ætla ekki að gera lítið úr þeim rétti manna að eiga að fá að róa til fiskjar fyrir sig og sína. Hér er reyndar verið að opna á að menn hafi atvinnu af þessu og eins og ég hef sagt hér þá vil ég fyrir fram ekkert úttala mig um það hver stefna Framsóknarflokksins muni vera í þessu. En eins og ég hef sagt þá munum við ekki vilja innleiða neinar kollsteypur í íslenskan sjávarútveg, sérstaklega eins og ástand mála er í samfélaginu í dag. Sjávarútvegurinn er að skapa þúsundum manna atvinnu og ég held að við viljum öll viðhalda ákveðnum stöðugleika hvað varðar rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Það er mjög mikilvægt á tímum sem þessum. (Gripið fram í: En ef allir eru gjaldþrota?) Hvað breytingar varðar á lögum um stjórn fiskveiða þá er ekkert hafið upp yfir það að skoða slíka hluti. Ég tel að skilaboð síðasta flokksþings framsóknarmanna hafi verið þau að fara yfir sjávarútvegsmálin með opnum huga, sérstaklega með tilliti til þeirra aðstæðna sem hafa skapast í samfélaginu á síðustu vikum og mánuðum.