136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, sem hér hefur verið sagt, að það er mjög undarlegt að taka þurfi mál af þessu tagi upp í þinginu til að reyna að varpa ljósi á það hvort þetta bréf hafi í fyrsta lagi borist frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það þurfti heilan dag í gær til að draga það fram. Í öðru lagi er svo það að þetta bréf sé lagt fram í viðeigandi þingnefnd eins og óskað hefur verið eftir. Það var athyglisvert að formaður nefndarinnar gat ekki svarað því afdráttarlaust hvort eftir því yrði leitað með formlegum hætti að þetta bréf yrði lagt fram sem hver önnur gögn í þessari nefnd.

Um það var talað, virðulegi forseti, af hálfu hv. þingmanns að leitað yrði eftir formlegri umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ber þá að skilja það þannig að ekki eigi að leggja þetta bréf fram sem upplýst var í gærkvöldi að borist hefði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Hvaða leynipukur er þetta eiginlega? Hvað er það í þessu bréfi sem menn telja hugsanlega að sé af þeim toga að sveipa þurfi það einhverjum leyndarhjúp?

Um er að ræða mál sem komið er fyrir Alþingi, frumvarp frá hæstv. forsætisráðherra, sem verið er að fjalla um. Það er mjög mikilvægt að það fái vandlega þinglega meðferð vegna þess að það skiptir miklu máli, m.a. fyrir trúverðugleika Alþingis og fyrir trúverðugleika þjóðarinnar, að vel takist til — þetta pukur í kringum málið er því til þess fallið að grafa undan þessum trúverðugleika, að það þurfi að elta uppi og krefja hv. formann nefndarinnar svara í þinginu til að geta varpað ljósi á það hvað í bréfinu stendur.

Ég tel út af fyrir sig eðlilegt, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði áðan, að nefndin fari formlega fram á það við forsætisráðherra að umrætt bréf sé lagt fram þannig að það liggi þá fyrir hvað í því stendur. Við erum að fjalla um heilmikið mál, stórt mál, sem er skipulag peningamálastjórnunar í landinu. Þegar það liggur fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt fram skoðun sína í þessum efnum ber auðvitað að reyna (Forseti hringir.) að treysta á það að sú skoðun komi fram, enda er það í samræmi (Forseti hringir.) við það sem hæstv. fyrrv. forsætisráðherra lagði til, þ.e. að kalla eftir sérfræðilegu áliti (Forseti hringir.) Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.