136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur forsætisráðherra upplýst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefi formlega umsögn um þetta ágæta seðlabankafrumvarp sem við ræddum sl. föstudag. Ég er mjög ánægð með það og mér finnst þetta mjög athyglisvert vegna þess að í umræðunum á föstudaginn spurði ég hæstv. ráðherra ítrekað að því, fyrst í ræðu minni, sem var upp úr hádegi, og svo í andsvari, sem var held ég rétt fyrir kvöldmat eða kannski um hálfsjöleytið, hvort ekki væri góður bragur á því og góð stjórnsýsla að senda þetta ágæta frumvarp til umsagnar erlendis. Vegna þess að frumvarpið fjallar um orðspor okkar og heiður út á við ekki síst, að sögn stjórnarliða, og því spurði ég hvort ekki væri góður bragur að því að senda þetta frumvarp til umsagnar til erlendra aðila og þar á meðal nefndi ég Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sérstaklega.

Þá fannst hæstv. ráðherra allsendis óþarfi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fengi þetta frumvarp til skoðunar og þyrfti í rauninni ekki að hafa neina skoðun á því vegna þess að hún upplýsti það í síðari ræðu sinni að þetta væri allt saman byggt á fjögurra ára gamalli skýrslu frá árinu 2005 og því hlyti álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hafa komið fram. Mér finnst þetta allt mjög athyglisvert því að á sama tíma og ráðherrann flytur þessa ræðu hér í þinginu eru embættismennirnir í ráðuneytinu að senda eða búnir að senda og láta þýða frumvarpið, sem ráðherranum fannst alveg óþarfi að gera, til sjóðsins og biðja þá um umsögn um frumvarpið og þar að auki upplýsti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í þessu tölvuskeyti í gær að þetta hefði allt verið eftir áætlun og verklagi við áætlun, efnahagsáætlun sjóðsins.

Þá er spurningin: Vissi ráðherrann ekki af þessu eða fór hún með rangt mál í umræðunni? Það er ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra að þessu og ef formaður hv. viðskiptanefndar getur svarað mér þætti mér mjög vænt um að fá það svar.