136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég skal taka ómakið af hv. formanni viðskiptanefndar og svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður sem hér talaði síðastur varpaði fram. Það hefur einfaldlega komið fram að hæstv. forsætisráðherra vissi ekki af því að þetta hafði borist, svo einfalt er það nú.

Mér finnst hins vegar örla á misskilningi hjá mörgum þingmönnum og ég verð að segja hjá mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem ég taldi að væru nokkuð þingreynt fólk. Málið er komið inn í þingið, það er ekki lengur á forræði framkvæmdarvaldsins. Þingið ræður. Þingið getur gert hvað eina sem það vill. Ef það óskar eftir tiltekinni umsögn gerir þingið það. Ef þingið óskar eftir tilteknum upplýsingum frá hæstv. forsætisráðherra fer þingið fram á það, það er ekkert flóknara en það. Það sem við eigum að reyna að sameinast um að brjóta niður er það sem við illu heilli tókum mörg þátt í að byggja upp, sem var ráðherraræði síðustu áratuga. Það er það sem við eigum að reyna að gera til þess að hefja upp aftur vald og áhrif Alþingis. (Gripið fram í.)

Um þetta mál vil ég bara segja það: Það er að sjálfsögðu rétt að hafa til hliðsjónar og fá álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við höfum skuldbundið okkur til þess að hafa sem nánast samstarf við hann í sem flestum efnum sem að þessu lúta. Það gerðum við í síðustu ríkisstjórn og það kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar að það hyggjumst við gera líka.

Ég vil líka fallast á það sem eini ráðherrann sem nú situr í ríkisstjórn sem tók þátt í að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn af hálfu fyrri ríkisstjórnar að það var mjög óheppilegt gagnvart þjóðinni og gagnvart þinginu að ekki komu fram upplýsingar um innihald þess samnings. Af hverju var það? Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem hér talar á eftir, getur staðfest af hverju það var. Það var vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði mjög ríka áherslu á fullkominn trúnað þangað til það mál væri komið inn í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðan, af einhverjum ástæðum sem ég get ekki skýrt, (Forseti hringir.) tók það meira en tvær vikur. Það var óheppilegt, (Forseti hringir.) öll svona mál eiga að vera uppi á borðinu.