136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[13:55]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er upplýst hér að það er stefna nýrrar ríkisstjórnar að segja satt og rétt frá í öllum atriðum. (Gripið fram í.) Við munum svo sannarlega beita okkur fyrir því að aflétta þeim leyndarhjúp sem hefur umlukið stjórnarathafnir Sjálfstæðisflokksins hér í 18 ár, innmúraðar og innvígðar. Við munum gera það. Og það er ánægjulegt að við höfum fengið liðsstyrk frá Sjálfstæðisflokknum, sem nú óskar eftir upplýsingum og vill fá allt upp á borðið. Þá skora ég á hv. þm. Birgi Ármannsson að upplýsa nú þingheim um það hvernig hann fékk vitneskju um tölvupóst til forsætisráðherra áður en hæstv. forsætisráðherra fékk að vita um hann sjálf. (Gripið fram í.) Það væri eðlilegt í ljósi þeirrar miklu sannleiksástar sem allt í einu hefur gripið Sjálfstæðisflokkinn og það er gott. Það er gott að það er búið að skipta um forrit í þessum flokki, það var kominn tími til. Kannski þeir hafi farið að heyra hér eitthvað utan af (Gripið fram í.) velli.

Ég vil endurtaka að ég tel að hæstv. forsætisráðherra hafi brugðist algerlega rétt við þessum tölvupósti frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Forsætisráðherra óskaði strax eftir því að trúnaði yrði aflétt af þessu skjali. Þegar því var neitað var óskað eftir því að það bærist formleg umsögn. Hún mun berast og hún mun að sjálfsögðu lögð fram í viðskiptanefnd þingsins.

Alþingi hefur löggjafarvaldið og þarf ekki, að mínu viti, að leita (Gripið fram í.) til hins nýja stiftamtmanns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um það hvað hér er samþykkt og hvað ekki. (Gripið fram í.) Við munum fá öll gögn inn á borð hv. viðskiptanefndar og við munum taka sjálfstæða afstöðu til allra þeirra gagna, líka þeirra sem berast frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.