136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum -- aðild að ESB.

[14:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. formaður viðskiptanefndar sagði áðan að það væri ánægjulegt að fá liðsstyrk í þetta mál og talaði um að sá liðsstyrkur kæmi frá Sjálfstæðisflokknum. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að málum væri þannig komið á stjórnarheimilinu að sérstakan liðsöfnuð þyrfti til þess að fara fram á jafneinfaldan hlut og þann að fyrir þingnefnd sé lagt bréf sem liggur í forsætisráðuneytinu og varðar þingmál sem Alþingi er að fjalla um. Það eru þá nýir tímar ef safna þarf sérstöku liði til að fá upplýsingar sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum af hálfu forsætisráðuneytisins að séu tæknilegs eðlis.

Það er óþolandi að vita til þess að verið sé að pukrast með þetta bréf með þessum hætti — sagt var frá því að það hefði komið í forsætisráðuneytið um helgina, væntanlega á laugardag eða sunnudag, og því var haldið leyndu fyrir hæstv. forsætisráðherra sjálfum fram á daginn í gær. Er formaður þingflokks Samfylkingarinnar að gefa til kynna að hæstv. forsætisráðherra hafi vitað um bréfið í gær? Auðvitað ekki. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafði ekki fengið afrit af þessu bréfi og vissi ekki um efni þess.

Aðalatriðið er þó þetta, virðulegi forseti, ef ég fæ frið fyrir frammíkallaranum, hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni: Getur ekki fulltrúi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í umræðunni svarað einni ákaflega einfaldri spurningu? Hún er þessi: (Gripið fram í.) Er hugmyndin sú að þetta bréf verði lagt fyrir viðskiptanefnd Alþingis eður ei? Þetta mál er ekki flóknara en það. Þetta er hin einfalda spurning. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Menn hafa tiplað í kringum hana. Hæstv. utanríkisráðherra talar drýgindalega um það að málið sé í höndum Alþingis en það er einfaldlega þannig að Alþingi hefur ekki fengið svar við því hvort það fái að skoða bréfið, þessar tæknilegu upplýsingar sem forsætisráðuneytið liggur á eins og ormur á gulli.