136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðfestingu tveggja viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn sem varða aðild Albaníu og Króatíu. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda tvo viðbótarsamninga sem voru gerðir við Norður-Atlantshafssamninginn frá 1949 og varða aðild þessara tveggja lýðvelda að samningum.

Í 2. gr. þessara viðbótarsamninga er kveðið á um að þeir öðlist því aðeins gildi að allir aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum hafi tilkynnt um staðfestingu sína á þeim. Mikil áhersla er lögð á það, herra forseti, að öll aðildarríki bandalagsins hafi lokið þessu staðfestingarferli í tíma þannig að aðild þessara vinaríkja okkar, Albaníu og Króatíu, geti orðið að veruleika á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem á að vera, eins og þeir sem sitja í utanríkismálanefnd hafa fylgst með og vita, hinn 3. apríl nk.

Ísland hefur ávallt verið í hópi þeirra ríkja sem hafa lagt áherslu á það að bandalagið sé opið öllum lýðræðisríkjum að því tilskildu að þau uppfylli þau pólitísku, efnahagslegu og hernaðarlegu skilyrði sem eru sett umsóknarríkjum vegna inngöngu.

Við höfum á umliðnum árum margsinnis staðfest fyrir Íslands og Alþingis hönd samninga sem hafa leitt til þess að á þessum tíma — frá því að Sovétríkin hrundu og kalda stríðinu lauk held ég að aðildarríkjafjöldinn hafi farið úr 12 í að verða 28. Hér á þessu háa Alþingi höfum við alltaf lagt áherslu á sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Þó að ýmsir þingmenn hafi á stundum haft fyrirvara við stækkun Atlantshafsbandalagsins út frá því sem kalla má „geopólitískum“ sjónarmiðum þá hefur það alltaf verið niðurstaða þessa þings að menn virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ef þjóðir kjósa að sækja sér skjól eða tryggja hagsmuni sína með því að ganga til liðs við bandalagið á þeim forsendum sem það hefur sett hefur Alþingi Íslendinga aldrei reynt að hafna slíkri viðleitni.

Segja má að sú stækkun sem nú er fyrirhuguð hjá Atlantshafsbandalaginu sé síðasta lotan af þremur stækkunarhrinum sem hafa orðið frá því að Þýskaland sameinaðist, Sovétríkin leystust upp, Varsjárbandalagið varð að engu og eftir að kalda stríðinu, sem við kölluðum svo á okkar tíma, lauk. Í kjölfar þeirra miklu breytinga hófst aðlögun bandalagsins að breyttum aðstæðum og margvíslegum fjölþættari viðfangsefnum sem lutu ekki einungis að því að stækka bandalagið — ég rifja það upp að bandalagið stofnaði m.a. Norður-Atlantshafssamráðið og það stofnaði friðarsamstarfið sem á ensku gengur undir nafninu og þingmenn þekkja sem Partnership for Peace. Þetta leiddi fljótlega til víðtæks samstarfs við ýmis Evrópuríki sem voru utan bandalagsins. Þessi þróun, sem hófst á þessum árum, eftir lok kalda stríðsins, leiddi til þess að stjórnvöld í tólf Mið- og Austur-Evrópuríkjum lýstu á árunum þar á eftir yfir miklum vilja til þess að fá aðild að bandalaginu.

Ég rifja það upp að á leiðtogafundi bandalagsins í Brussel 1994, sem á sínum tíma var mikið fjallað um, var áréttað að bandalagið stæði nýjum aðildarríkjum opið og í kjölfar þess réðst bandalagið í það að gera úttekt á forsendum og markmiðum hugsanlegrar fjölgunar aðildarríkja og var sú úttekt samþykkt sléttu ári síðar, 1995. Um svipað leyti hófu stjórnendur bandalagsins og fulltrúar þeirra viðræður við stjórnvöld í þeim ríkjum sem við höfum stundum kallað umsóknarríki á þessum árum til að meta pólitískar ástæður og aðrar ástæður í einstökum ríkjum á grundvelli úttektarinnar sem gerð var á árinu 1994–1995.

Af hálfu bandalagsins hefur alltaf verið lögð áhersla á að stækkunin eigi að hafa það að markmiði að leiða til aukins öryggis og aukins stöðugleika í Evrópu og styrkja um leið þá lýðræðisþróun sem hefur átt sér stað innan viðkomandi umsóknarríkis. Það var svo í Madrid, þremur árum eftir fundinn í Brussel, sem leiðtogafundur Atlantshafsfbandalagsins steig í reynd það sem kalla má fyrsta skrefið til austurs. Þá var ákveðið að bjóða Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi aðild að bandalaginu. Öll þessi ríki höfðu æskt þess með mjög afdráttarlausum hætti. Á þessum fundi var því líka lýst ítarlega yfir og áréttað af hálfu bandalagsins að það yrði áfram opið lýðræðisríkjum í Evrópu sem gætu stuðlað að því að ná fram markmiðum Norður-Atlantshafssamningsins frá 1949 óháð landfræðilegri legu þeirra. Þessi þrjú ríki urðu síðan formlegir aðilar að bandalaginu tveimur árum síðar, 1999.

Þremur árum síðar, þ.e. árið 2002, á fundi leiðtoga Atlantshafsbandalagsins í Prag, var síðan ákveðið að stíga miklu umdeildara skref eins og þingmenn muna þegar ákveðið var að bjóða sjö ríkjum aðild að bandalaginu, Búlgaríu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu. Á þeim tíma urðu miklar umræður um þessa stækkunarviðleitni bandalagsins, m.a. á hinu háa Alþingi. Ég minnist þess að ég tók þátt í þeim umræðum og hélt hér mjög margar ræður til að verja rétt Eystrasaltsríkjanna þriggja til að taka þessa sjálfstæðu ákvörðun sem mörgum þótti raska stöðugleika í þeim hluta Evrópu.

Þarna er um grundvallarafstöðu að ræða. Þegar ríki óska sjálf eftir því að fá aðild að bandalagi eins og Atlantshafsbandalaginu tel ég að ekki séu nokkur föng til að bregða fæti fyrir það. Ríki og sérstaklega smáríki hljóta að hafa fullan skilning á þeirri nauðsyn að sérhvert ríki hafi sjálfsákvörðunarrétt í þessum efnum. En fyrst og síðast verður að miða — ég komst að raun um það í þeim umræðum að það var umdeild afstaða á hinu háa Alþingi, en ég er þessarar skoðunar að það sé gríðarlega mikilvægt að sérstaklega smáríki eins og Ísland geri sér fulla grein fyrir því að nauðsynlegt er að hafa skilning á því þegar önnur smáríki leita eftir því að treysta í sessi stöðugleika sinn sem þjóðar og öryggi með því að fá aðild t.d. að bandalagi eins og Atlantshafsbandalaginu eða þá Evrópusambandinu.

Menn undirrituðu þessa nauðsynlegu viðbótarsamninga ári síðar, 2003, og þessi ríki urðu síðan formlegir aðilar að bandalaginu árið 2004. Athyglisvert var að öll þessi ríki höfðu frá árinu 1999 tekið þátt í því sem bandalagið kallaði aðgerðaáætlun til undirbúningsaðildar ásamt öðrum ríkjum, Albaníu og Makedóníu. Vinaþjóð okkar, Króatar, bættist síðan í þennan hóp aðgerðaáætlunarinnar árið 2002. Þessi aðgerðaáætlun miðar að því að aðstoða ríki sem hafa í hyggju að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu eða undirbúa aðildina en ríkin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, pólitísk, efnahagsleg, en líka skilyrði frá öryggisfræðilegu sjónarmiði áður en af aðild getur orðið.

Á leiðtogafundinum hinum síðasta, sem haldinn var í Búkarest í apríl á síðasta ári, var svo ákveðið að bjóða þeim tveimur ríkjum sem við erum hér að fjalla um, þ.e. Albaníu og Króatíu, aðild að bandalaginu enda var þá gengið úr skugga um að þessi ríki hefðu uppfyllt skilyrði aðgerðaáætlunarinnar sem ég nefndi áðan. Þessi tvö ríki munu sjálf greiða kostnað við aðlögun eigin varna að áætluninni og hinu samræmda varnarkerfi bandalagsins og ekki er gert ráð fyrir því að núverandi aðildarríki þurfi í einu eða neinu að breyta eigin varnaráætlunum eða auka útgjöld til varnarmála vegna fjölgunar aðildarríkjanna.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er fyrir dyrum, innan tæplega tveggja mánaða, fundur þar sem gert er ráð fyrir því að hinu endanlega staðfestingarferli aðildarríkja að samningnum verði lokið. Það er eðlilega óskað eftir því af hálfu þessara ríkja og bandalagsins sjálfs að hægt verði að ganga frá fullri aðild Albaníu og Króatíu á leiðtogafundinum 3. apríl. Það er þess vegna sem þetta mál, sem að vísu er lagt fram fyrir jól, er flutt hér núna og verður vonandi tekið fyrir sem allra fyrst í utanríkismálanefnd þingsins því að ég tel að það sé full ástæða til að við hröðum staðfestingarferlinu af okkar hálfu. Það liggur fyrir að inntökuskilyrðin af hálfu Albaníu og Króatíu hafa verið uppfyllt og ég hef metið það svo og utanríkisráðuneytið að innganga þessara tveggja ríkja muni hafa jákvæð áhrif til að efla öryggi og stöðugleika á Balkanskaganum.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að þessari umræðu lokinni.