136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[14:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég held að það eigi ekki að vera neinn ágreiningur um að þær þjóðir sem hér um ræðir eigi að geta tekið sína lýðræðislegu ákvörðun um það hvað þær kjósa að gera í þessu efni.

Varðandi hitt málið sem ég vakti máls á vegna þess að það er mér mjög hugleikið og varðar þessi „prinsipp“ um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, get ég ekki látið hjá líða að nefna, af því að hæstv. ráðherra nefndi að þau væru héruð innan Georgíu sem væri líka sjálfstæð og fullvalda þjóð, að ákvörðunin um að innlima þessi héruð í Georgíu var mjög sérkennileg. Það var vegna þess að þessi héruð voru ekki hluti af lýðveldinu Georgíu þegar Georgía gerðist aðili að Sovétríkjunum á þriðja áratug síðustu aldar. Það kom til seinna að bæði Suður-Ossetía og Abkasía voru innlimuð í Georgíu með fyrirskipun frá Jósef Stalín sem var Georgíumaður, að vísu Osseti líka að hluta til.

Þess vegna hef ég alla tíð haldið því fram að það sé einkennilegt að lýðræðisþjóðir á Vesturlöndum skuli taka þá gjörð sem góða og gilda þegar þær þjóðir sem lifa í þessum héruðum hafa alla tíð mótmælt því að hafa verið limaðar inn í Georgíu. Ég vil ekki að menn feti í fótspor gamla Stalíns í þessu efni nema síður sé.

Það hefur keyrt mig áfram, hæstv. ráðherra, í þessu máli. Ég vil virða vilja þessara þjóða sjálfra og ég er þeirrar skoðunar og sagan sýnir okkur, ef menn fara í skoðun á því, að það var gegn þeirra vilja sem þær voru innlimaðar í Sovétríkin með sérstöku „dekret“ eins og það hét á tímum Sovétríkjanna, sérstöku „dekret“ frá Jósef Stalín. Og mér finnst ekki hæfilegt eða sæmandi að við fetum í fótspor (Forseti hringir.) hans og breiðum stalínismann út.