136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

lögskráning sjómanna.

290. mál
[14:50]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Breytingin með þessu frumvarpi er aðallega sú að í staðinn fyrir 12 brúttólestir er nú farið í 20 brúttólestir. Það þýðir að nú eru fleiri lítil skip en áður sem ekki þurfa lögskráningu. Slysatíðni um borð í skipum og skipstapar eru miklu meiri og fleiri á litlum skipum en stórum. Það er það sem ég rek augun í við fyrstu sýn.

Það er auðvitað margt sem þarf að skoða, eins og hvaða reglugerðarþættir það eru eins og í 7. gr. frumvarpsins um reglugerðarheimild. Það þyrfti nánari útlistun og síðast en ekki síst undanþágurnar frá því að vera með lögskráningu sem hugsanlegt er að gera eins og stendur í frumvarpinu, á hafsögubátum, dráttarbátum, björgunarskipum, frístundafiskiskipum og farþegaskipum til skoðunarferða.

Það er mjög sérkennilegt. Ég get fallist á það hvað varðar björgunarskipin sem þarf að manna einn, tveir og þrír ef eitthvert óhapp verður og þau þurfa að komast á sjó hvort sem það eru skráð á þau eða ekki. Og kannski hafnsögubáta þar sem menn koma og fara úr vinnunni og er kannski ekki hægt að vera með þá alla skráða. Þó ætti það nú að vera hægt. En t.d. er engin ástæða að undanskilja dráttarbáta og frístundaskip lögskráningu. Oft eru það útlendingar sem leigja frístundaskip. Ég held að það væri mjög þarft að vera þar með skráningu og vita hverjir eru um borð á hverjum tíma. Sama á við farþegaskip (Forseti hringir.) í skoðunarferðum.