136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

lögskráning sjómanna.

290. mál
[14:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp frá hæstv. samgönguráðherra um lögskráningu skipa og rétt á eftir mun hann mæla fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um eftirlit með skipum. Þessi mál hanga töluvert saman. Mig langar í stuttu máli gera grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna í samgöngunefnd gagnvart því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Ég get ekki farið í nákvæmar útlistanir á skipstjórnarréttindum eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson getur gert í sínum ræðum. Það nú reyndar svo að í samgöngunefnd situr einnig annar mjög reyndur skipstjórnarmaður, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Það hefur satt að segja reynst mjög gagnlegt í störfum nefndarinnar, sérstaklega þegar til umræðu eru mál er varða réttindi skipstjórnarmanna, að hafa svo reyndan skipstjórnarmann eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson í nefndinni. Ég held að ég tali fyrir munn margra nefndarmanna að við hlustum vel þegar hann lýsir skoðunum sínum á þeim réttindum sem þarna þarf að líta til.

Það sem er verið að leggja til er einföldun á kerfinu. Verið er að gera breytingu í átt að rafrænni skráningu sem ég tel vera mjög til bóta. Það er líka verið að gera breytingar á því hvar tryggingayfirlýsing liggur fyrir og færa hana frá lögum um lögskráningu sjómanna yfir til laga sem varða eftirlit með skipum. Mér finnst það vera réttmæt og eðlileg breyting.

Síðan er það sem varðar stærð þeirra skipa sem þarf að lögskrá. Það getur vel verið að sitt sýnist hverjum í því efni og ég á þá von á því að nefndin taki það til skoðunar.

Við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir framgangi þessara frumvarpa og leggja okkar af mörkum í samgöngunefnd til þess að þessi mál fái þar góða afgreiðslu.