136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

eftirlit með skipum.

291. mál
[15:11]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með skipum. Þá kemur kannski framhald af því sem við ræddum áðan. Lögskráningarskylda samkvæmt gildandi lögum nær eingöngu yfir skip sem eru 20 brúttótonn eða stærri.

Þetta er staðreynd. Við megum ekki rugla saman lögskráningu annars vegar og tryggingum hins vegar. Öll skip og allur mannskapur þurfa að vera með tryggingar í lagi. Það þurfa að vera mannatryggingar, slysatryggingar og þess vegna eru tryggingar ekki það sama og lögskráning þannig að mér finnst nauðsynlegt að gera athugasemd við þetta. Ég tek það fram enn og aftur að lögskráning á skip er eitt, það þarf að tilkynna skráningarstjóra um leið og skip fer úr höfn og afskrá þegar viðkomandi maður hættir í áhöfn, en tryggingar eiga við allar stærðir báta alveg niður í tveggja tonna trillur og þar þurfa öll skip að vera með mannatryggingar í lagi og með haffærisskírteini og þar af leiðandi húftryggingu skipsins sjálfs í lagi og annað. Hér er verið að rugla saman hlutum og það stendur skýrt í frumvarpinu að lögskráningarskylda samkvæmt gildandi lögum nái eingöngu yfir skip sem eru 20 brúttótonn eða stærri.

Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að átta á sig á því um hvað verið er að tala og auðvitað er grautfúlt að þurfa að rífast um þessa þætti en þetta er alveg skýrt hér og ég held að við getum alveg verið sammála um hvernig túlkunin á þessu er. Ruglum ekki saman lögskráningu og tryggingu.