136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég geti fullyrt að þetta er almenn aðgerð og hún er ekki háð neinum sérstökum takmörkunum. Það eiga allir að geta nýtt sér þetta. Ég veit ekki betur en þetta sé fortakslaus og almenn regla þannig að engar girðingar eða hindranir eru í vegi. Þetta er vissulega bundið við íbúðarhúsnæði og þetta er bundið við vinnuþáttinn á byggingarstað — í þeim tilvikum sem um framleiðslu er að ræða, annars staðar kemur vinnuþátturinn þannig inn eins og ég nefndi áðan með húseiningarnar. Ég get vissulega upplýst og það kemur, ef ég man rétt, fram í greinargerð með frumvarpinu að hugleitt var að opna á möguleikana á að sveitarfélög gætu, vegna framkvæmda sinna, komið inn í þessa mynd en horfið var frá því að betur athuguðu máli, einfaldlega vegna þess að samskipti sveitarfélaga og ríkisins í virðisaukaskattsmálum eru flókin og uppgjörsmál þar snúin. Menn töldu ekki ráðlegt að fara inn í það þannig að þetta er bundið við einstaklingana.

Eina hugmyndin sem fram hefur komið í mín eyru, sem ekki er þá hér inni og snýr að einstaklingum, spratt fram á fundi okkar forustumanna ríkisstjórnarinnar með aðilum vinnumarkaðarins í gær en þar var spurt hvort ekki ætti að leyfa fólki að ráðast í endurbætur eða framkvæmdir á sumarbústöðum og hafa það með þarna undir. Ég beini því til hv. nefndar að huga að því, ég hef enga afstöðu tekið til þess en fyrst og fremst hafa menn verið að horfa á framkvæmdir á vegum einstaklinga við íbúðarhús sín og við það er málið miðað.