136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[15:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. fjármálaráðherra, um breytingar á lögum um virðisaukaskatt, þar sem lagt er til að endurgreiðslur á virðisaukaskatti verði 100% í stað 60% við viðhald og vinnu manna á byggingarstað við eigin íbúðarhúsnæði. Annars vegar er markmiðið, eins og fram hefur komið, að greiða fyrir framkvæmdum í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðfélaginu á vinnumarkaðnum og hins vegar er þetta gert að sögn til að sporna við svartri atvinnustarfsemi.

Ég lýsi stuðningi mínum við þetta frumvarp og okkar sjálfstæðismanna. Ég tel að þetta sé góð viðleitni ríkisstjórnarinnar til að koma atvinnulífinu til aðstoðar á erfiðum tímum og margt smátt gerir eitt stórt. Allt hjálpar þetta til. Eins og rakið var í ræðu hæstv. fjármálaráðherra og í andsvari hv. þm. Bjarkar Guðjónsdóttur þá getur þetta skipt miklu máli.

Ég vona svo sannarlega að fólk nýti sér þetta vegna þess að það er rétt, sem fram hefur komið, og kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, að á undanförnum árum hefur verið erfitt að fá iðnaðarmenn til starfa við viðhald íbúðarhúsnæðis. Það er því viðbúið að á þessu sviði sé eftirspurn eftir þjónustu iðnaðarmanna og þá er gott að hægt sé að koma til móts við það.

Ég vona svo sannarlega að þetta hjálpi líka til við að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi. Án þess að ég vilja kasta rýrð á stétt iðnaðarmanna, þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir, þá veit ég og þekki það af eigin reynslu að stundum hefur verið erfitt að fá iðnaðarmann til að taka að sér viðskipti þegar maður vill hafa það allt saman uppi á borði og fá tilskildar nótur. Það hefur stundum jafnvel verið til trafala og valdið manni ákveðnum erfiðleikum. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra því til að hafa fyrirkomulagið við þetta eins einfalt og hægt er til að menn nýti sér þetta þannig að flókin pappírsvinna, eins og skatturinn er kannski þekktur fyrir að hafa gaman af, verði ekki til að skemma fyrir annars ágætu máli.

Hæstv. fjármálaráðherra óskaði eftir góðu samstarfi við efnahags- og skattanefnd í þessu máli. Sem fulltrúi í þeirri nefnd get ég sagt að ég mun gera mitt til að greiða fyrir þessu máli í nefndinni og reyna að ná því út þannig að sá frestur sem hæstv. fjármálaráðherra tiltók hér áðan náist.