136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[15:40]
Horfa

Flm. (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði við lög nr. 129/1997 ákvæði til bráðabirgða sem heimilar útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu 1. apríl 2009 til 31. desember 2010 til sérstakrar ráðstöfunar. Með vísan til hinna efnahagslegu áfalla sem dunið hafa yfir íslenskt samfélag á síðustu vikum og mánuðum er þeim sem eru með séreignarsparnað í skilningi II. kafla laganna með frumvarpinu tímabundið gert kleift að nota þá fjármuni sem öðrum kosti væru bundnir til 60 ára aldurs til að greiða niður lán sín eftir því sem kostur er.

Sem kunnugt er hafa húsnæðislán og önnur lán hækkað verulega á síðustu mánuðum vegna verðbólgu og gengisfalls krónunnar og er með þeirri tímabundnu aðgerð sem frumvarpið kveður á um verið að veita einstaklingum ákveðna möguleika til að bregðast við þeirri þróun og lækka greiðslubyrði lána sinna.

Með frumvarpinu er lagt til að þessi tímabundna útgreiðsla séreignarsparnaðar, samkvæmt II. kafla laganna, verði í höndum vörsluaðila viðkomandi séreignarsparnaðar. Ekki er því um beina útgreiðslu í hendur rétthafa að ræða heldur millifærslu á fjármunum og séreignarsparnaði til niðurgreiðslu skulda viðkomandi rétthafa til viðkomandi lánastofnunar eða lífeyrissjóðs. Er því í raun og veru um tilfærslu á sparnaðarformi að ræða.

Óski rétthafi eftir því að séreignarsparnaður hans sé að fullu eða hluta nýttur til að greiða niður skuldir gerir frumvarpið ráð fyrir því að hann leggi fram umsókn þess efnis hjá þeim vörsluaðila sem heldur utan um séreignarsparnaðinn. Með þeirri umsókn þurfi að fylgja öll gögn sem sýna skuldastöðu rétthafa, t.d. kvittanir fyrir afborgunum og lánum sem og veðbókarvottorð. Eru það sömu gögn og lánþegi þarf að leggja fram þegar óskað er eftir láni hjá lífeyrissjóði.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að viðkomandi vörsluaðili fari yfir umsókn rétthafa og ráðstafi séreignarsparnaði hans til greiðslu lána beint til viðkomandi lánastofnunar eða lífeyrissjóðs.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við ráðstöfun vörsluaðila á séreignarsparnaðinum hafi húsnæðisveðskuldabréf forgang. Því næst lán tryggð með veði í öðru en íbúðarhúsnæði og að lokum aðrar skuldir við lánastofnanir eða lífeyrissjóði. Áréttað er í frumvarpinu að líta beri á hina tímabundnu útgreiðslu séreignarsparnaðar sem skattskyldar tekjur af hendi rétthafa og ber honum því að greiða tekjuskatt af útgreiðslunni sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fyrirséð er að í framkvæmd haldi vörsluaðilinn staðgreiðslu tekjuskatts eftir við útgreiðslu og standi skil á henni í ríkissjóð. Gera má ráð fyrir einhverjum umsýslukostnaði hjá vörsluaðila vegna þeirrar þjónustu við rétthafa sem frumvarpið kveður á um og er í frumvarpinu lagt til að vörsluaðili geti innheimt umsýslugjald vegna þess kostnaðar.

Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir að fjármálaráðherra geti með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd og fyrirkomulag þeirrar tímabundnu útgreiðslu séreignarsparnaðar sem frumvarpið kveður á um.

Þetta frumvarp er tilraun til að aðstoða þá sem skulda verulega og hafa jafnvel snögglega lent í mjög miklum skuldum vegna efnahagsáfallanna og nýta til þess þann sparnað sem þeir eiga í séreign. Auðvitað er ekki gallalaust að leggja til svona breytingu en það er, held ég, alveg ljóst að þeir sem illa eru staddir vegna skulda en eiga séreign annars staðar eru litlu bættari með því að eiga hana einhvern tíma í framtíðinni og því teljum við flutningsmenn rétt að fara þessa leið. Þetta hefur áhrif á lífeyrissjóðina upp að einhverju marki en ef þetta fer í niðurgreiðslu skulda eiga peningarnir að vera áfram inni í kerfinu en ekki að fara út og þar sem séreign kemur á móti skuld er ekki um breytingu á veltunni á þessum markaði að ræða.

Hugsanlegt er að minni sjóðir lendi í erfiðleikum vegna þess að þeim gengur verr að greiða út vegna lausafjárstöðu. Því er gert ráð fyrir að frumvarpið taki ekki gildi samstundis heldur hinn 1. apríl og ættu þá þeir sjóðir sem í þeirri stöðu geta lent að hafa vaðið fyrir neðan sig. Þeir ættu einnig að geta brugðist við þessu ef þeir eru í verulegum vandræðum og verulega smáir sjóðir ættu, til að forðast að ójafnræði verði meðal sjóðseigenda, að geta leyst upp sjóðina og eignir þeirra sem ekki vilja taka út séreign sína yrðu endurfjárfestar og þannig komið í veg fyrir ójafnræði. Kostnaður gæti orðið vegna þessa, endurgreiðsla á sölulaunum og slíkt, og hugsanlegt er að það komi niður á þeim sem eiga séreignarsparnað í formi kostnaðar en auðvitað er ekki hægt að sjá allt fyrir. En opnað er á möguleika til að leysa það ef menn vilja.

Ég legg til, herra forseti, að þetta fari til efnahags- og skattanefndar að lokinni 1. umr. og nefndin fari yfir málið og meti kosti þess og galla en samþykki það síðan að lokum svo við getum afgreitt það í þinginu sem allra fyrst.