136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[15:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða hér við hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra um óframkomið stjórnarfrumvarp og í hverju það víkur þá frá þessu frumvarpi hér. Ég tók afar kurteislega til orða.

Það er út af fyrir sig rétt að af máli mínu mátti vel ráða að ég væri að segja það óumflýjanlegt að hafa þá aðferð sem þarna verður notuð ábyrga og þannig að kerfið ráði við hana og þannig að ekki skapist umsvifalaust hætta á að jafnræði milli sjóðfélaga verði fyrir borð borið og að jafnvel aðrir og verri hlutir gerist í kerfinu.

Ég vil segja það eitt við hv. flutningsmenn þessa frumvarps að þeir gerðu rétt í því að kalla strax til sín þá sem gerst þekkja til í þessum efnum, sérfræðinga sem hafa skoðað þetta frá öllum hliðum. Ekki stendur á mér að lána til þess sérfræðinga úr fjármálaráðuneytinu. Ég held að það væri hollt fyrir hv. þingmenn að fá slíka yfirferð á málinu í ljósi þess hver staða sjóðanna og staða á markaði er raunverulega í dag. Það er sá veruleiki sem við verðum að taka mið af þegar við leitum hér leiða til þess að koma til móts við óskir fólks um að fá einhvern aðgang að þessum sparnaði sínum til að bæta stöðu sína.

Ég skal þá með gleði vera handhafi þess að vilja fara þarna ábyrgar leiðir. Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill taka mikla áhættu stendur hann auðvitað pólitískt ábyrgur fyrir því en ég held að það sé rétt að fá þær upplýsingar upp á borðið. Fróðlegt væri fyrir menn að bera það undir þá sem núna þekkja stöðuna hvaða afleiðingar samþykkt þessa frumvarps Sjálfstæðisflokksins mundi hafa, svona galopins og óbreytts. Ég verð því miður að segja að ég er hræddur um að það yrði ekki gott sem út úr því kæmi, bara alls ekki gott.