136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[16:01]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð í belg um það frumvarp sem hér liggur frammi sem fjallar um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og snýr að viðbótarlífeyrissparnaði landsmanna.

Ég hef áður rætt það á Alþingi, allt frá því að bankarnir hrundu síðastliðið haust, að við þyrftum að skoða allar mögulegar leiðir og að óvenjulegar aðstæður kölluðu á óvenjulegar aðgerðir. Ég hef lengi talað fyrir því að skoðuð yrði vandlega sú leið að opna fólki möguleika á að nota séreignarlífeyrissparnað sinn til að koma sér út úr mestu kröggunum, m.a. til að greiða niður skuldir.

Þó að ég sé efnislega ekki sammála öllu sem stendur í frumvarpinu vil ég samt lýsa ánægju minni með að Sjálfstæðisflokkurinn skuli koma fram með málið núna. Ég kallaði nokkuð lengi eftir því á sínum tíma en, gott og vel, það er komið hér fram. Eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir áðan þá lítur dagsins ljós á næstunni væntanlega frumvarp frá ríkisstjórninni sama efnis enda var þetta mál á verkefnalista nýrrar ríkisstjórnar.

Það sem ég vil hins vegar leggja áherslu á og skiptir afar miklu máli í þessu er í raun og veru tvennt. Í fyrsta lagi að við grípum ekki til neinna aðgerða sem setja muni sjóðina sjálfa á hliðina, þ.e. að gæta þess að inngripið verði ekki með þeim hætti að þeim verði stefnt í hættu. Í öðru lagi að sú leið sem farin verði gagnist sannanlega því fólki sem þarf raunverulega á þessu að halda. Í því sambandi vil ég nefna, og það er skoðun mín, að þær skuldir sem tilgreindar eru í frumvarpinu, lán með veði í íbúðarhúsnæði svo dæmi sé tekið, t.d. lán frá Íbúðalánasjóði eða lífeyrissjóðum eru yfirleitt það sem kalla mætti hagstæð lán á Íslandi í dag. Þetta eru yfirleitt lán með tiltölulega lágum vöxtum, en svo eru hins vegar önnur lán sem að mínu mati eru miklu meira vandamál fyrir fjölskyldurnar í landinu. Það eru dýru lánin — myntkörfulánin, yfirdráttarlánin og önnur lán sem oft og tíðum eru á 20% vöxtum, bílalánin svo dæmi sé tekið.

Mér finnst felast í því nokkur forræðishyggja að skylda fólk til að nota peningana sína í að greiða niður tilteknar skuldir en ekki einhverjar aðrar skuldir. Það má jafnvel kalla það að hér sé verið að mismuna skuldum, þ.e. að lán frá Íbúðalánasjóði með veði í íbúðarhúsnæði séu rétthærri en önnur lán sem eru óhagstæðari.

Mér finnst líka að ekki sé hægt að sjá annað, eins og frumvarpið er lagt fram, en að það kalli á nokkuð mikla umsýslu vegna þess að hér stendur, með leyfi forseta:

„Vörsluaðili séreignarsparnaðar fer yfir umsókn rétthafa skv. 3. mgr. og hefur umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans. Við útgreiðslu séreignarsparnaðar skal vörsluaðili fylgja eftirfarandi forgangsröð við uppgreiðslu skulda rétthafa.“

Síðan er forgangsröðin talin upp. Þetta þýðir í raun og veru á mannamáli að sá sem vill leysa út séreignarsparnað sinn þarf að koma með öll sín gögn til vörsluaðila, til lífeyrissjóðsins sem fer þá yfir þau, metur og ákveður þá í samráði við skuldarann hvaða skuldir eigi að greiða.

Ég tel að við eigum að treysta almennri skynsemi fólks, ef það leysir út þessa fjármuni, til að ákveða sjálft hvort það vill nota þá til að greiða niður yfirdráttinn sinn, bílalánið eða eitthvað slíkt en ekki að vera að mismuna þarna eins og kemur fram í frumvarpinu.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa mörg fleiri orð um þetta að sinni. Ég geri ráð fyrir því að þegar frumvarp ríkisstjórnarinnar um sama mál kemur fram verði það rætt hér og síðan fari bæði málin til meðferðar í nefnd og komi síðan aftur inn í þingið. En ég legg áherslu á það sem ég sagði áðan að sú leið, hvaða leið sem farin verður, gagnist fólki raunverulega.

Það er kannski rétt að geta þess, virðulegi forseti, að upphaflega hugmyndin á bak við þetta mál kviknaði í október síðastliðnum eftir hrun bankanna. Þá var hugmyndin sú að reyna að koma til móts við þá sem skulda mest, þ.e. hugsunin var ekki sú að fólk gæti leyst þessa fjármuni út til að nota þá í neyslu eða eitthvað slíkt, heldur fyrst og fremst til að greiða niður skuldir og þá helst óhagstæðar skuldir. Það er í raun og veru ástæðan fyrir því að farið var að skoða málið á sínum tíma og sú sem hér stendur og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Árni M. Mathiesen, við sátum m.a. í hópi sem skoðaði þetta þar sem útgangspunkturinn var skuldirnar. Ég legg áherslu á að mér finnst ekki rétt að mismuna skuldum með þessum hætti heldur eigum við að treysta á almenna skynsemi fólks til að meta hvernig það notar peninga sína, hvort þeirra fara í yfirdrátt, í bílalán eða eitthvað annað.