136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[16:08]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á varðandi skyldutryggingu lífeyrisréttinda að skattprósenta af útgreiðslu séreignarsparnaðarins verði lækkuð þegar viðkomandi þarf að taka út meira en helming af sparnaðinum til lækkunar skulda sem safnast hafa upp vegna aðstæðna í þjóðfélaginu, hárrar verðbólgu, atvinnumissis eða lækkandi tekna af öðrum orsökum sem fólk á enga sök á í þeirri þróun afkomu sinnar sem það hefur orðið að þola. Þess vegna legg ég til að skoðað verði sérstaklega í efnahags- og skattanefnd hvort ekki sé eðlilegt og rétt að fella niður verulegan hluta skattgreiðslna þegar einstaklingur hefur þurft að nota meira en helming af séreignarsparnaði sínum til niðurfellingar á skuldum sínum. Í slíkri aðgerð stjórnvalda fælist örlítill viðurkenningarvottur á því að einstaklingurinn á enga sök á stöðu mála sinna og það mundi hafa mjög jákvæð áhrif út í þjóðfélagið. Ekki veitir af.