136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[16:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Fyrrverandi ríkisstjórn greip til margra skammtímaráðstafana til að rétta af hag fjölskyldna og einstaklinga í þjóðfélaginu sem hafa orðið fyrir áfalli, sérstaklega þeirra sem hafa misst atvinnuna eða lækkað í launum, og svo sérstaklega þeirra sem voru með gengistryggð lán og hafa farið mjög illa út úr því mikla hruni á gengi krónunnar sem við sáum á síðasta ári.

Eins og ég gat um í andsvari áðan er sú ráðstöfun sem hér er farið út í í rauninni millifærsla úr einum föstum reikningi yfir í annan fastan reikning og á að vera auðvelt að leysa með lánveitingu á móti ef ekki er laust fé til staðar.

Svo vil ég geta um það að neysla almennings hefur minnkað mjög hratt og tekjurnar hafa reyndar lækkað. Könnun gaf til kynna fyrir nokkru síðan, ekki löngu, að 7% þjóðarinnar hefðu misst vinnuna, það var könnun ASÍ, og 14% hefðu lækkað í launum. Það þýðir að tæplega 80% eru með óbreytt laun sem þýðir að meginhluti þjóðarinnar hefur hvorki lækkað í launum né misst vinnuna. Og sá hluti þjóðarinnar gerir ekki nema tvennt við launin sín eins og aðrir, hann annaðhvort sparar eða eyðir peningunum. Eyðsla hefur stórminnkað, það sýna allar tölur. Það er óskaplega mikil minnkun í eyðslu og innflutningi. Það þýðir að sparnaður hlýtur að hafa aukist mjög mikið. Ég hef verið að kanna það og kannaði það síðast í morgun en hef ekki fengið nein svör við því hve mikið sparnaður hefur aukist en mér segir svo hugur. Er dálítið merkilegt, herra forseti, að ekki skuli liggja fyrir tölfræði um það hve mikið sparnaður hefur aukist í öllu kerfinu. Með sparnaði á ég við niðurgreiðslu skulda og aukningu innlána.

Mér segir svo hugur að mánuðirnir október og nóvember séu þeir mánuðir í Íslandssögunni þar sem Íslendingurinn hefur sparað mest yfirleitt. Síðan koma desember og janúar, desember kannski síður en ég hugsa að janúar sé mikill sparnaðarmánuður. Það hlýtur því að vera mikill sparnaður á ferðinni einhvers staðar í kerfinu.

Þetta eru bráðaaðgerðir sem við erum að gera hér og ég vil benda á eitt atriði sem þarf að koma fram og þyrfti kannski að skoða í hv. nefnd, að taki menn út svona sparnað og verða svo gjaldþrota, ef þetta dugar ekki til og menn verða gjaldþrota engu að síður glatast þessi sparnaður. En ef hins vegar menn eru gjaldþrota og sparnaðurinn er inni í lífeyrissjóði þá er hann utan gjaldþrotsins. Það þyrfti eiginlega að ganga úr skugga um að aðgerðin dugi hjá þeim sem fara í þessa aðgerð.

Ég hef bent á að víða í Evrópu er meginuppspretta sparnaðar frjáls lífeyrissparnaður, sérstaklega í Þýskalandi, og þar tíðkast og hefur tíðkast í áratugi eða árhundruð að veita lán út á sparnaðinn. Það væri í sjálfu sér að mörgu leyti skynsamleg leið að menn mættu taka lán, svona 50%, til að eiga fyrir skattinum af restinni, 50% lán út á sparnaðinn sinn með sambærilegum vöxtum eða eitthvað ívið hærri vöxtum en sparnaðurinn gefur, það þarf eitthvað fyrir umsýslu, og það lán gætu menn notað til þess að greiða upp skuldir annars staðar. Munurinn á þessu er sá að þá mundu menn væntanlega halda áfram að spara því að margir vilja halda áfram að spara þó að þeir séu að gera upp einhverjar skuldir sem eru afmarkaðar bæði í tíma og rúmi og menn vilja kannski ganga frá. Ég held að menn ættu að skoða þetta í hv. nefnd.

Varðandi það hversu margir muni nýta þetta. Það er ljóst að sá vandi sem var fyrir nokkrum vikum og mánuðum og varðaði gengistryggðu lánin er náttúrlega aðalvandinn sem við glímum við. Það eru ekki verðtryggðu lánin, langt í frá, aðalvandinn eru gengistryggðu lánin, bæði bílalánin og íbúðalánin sem menn tóku ákvörðun um að taka af einhverjum ástæðum, væntanlega vegna þess að vextirnir voru miklu lægri. Það er svona ákveðið sjónarmið þar en það var svo sem bent á gengisáhættuna, margoft bent á hana og líka bent á hve óskynsamlegt væri að taka lán í annarri mynt en menn hafa tekjur í. Það er náttúrlega grundvallaratriði sem menn eiga að fylgja. En menn tóku sem sagt ákvörðun um að taka gengistryggð lán og þau hafa hækkað alveg óskaplega.

Eins og ég gat um í andsvari rétt áðan hefur gengið lagast mjög mikið undanfarna daga af ýmsum ástæðum, lítilsháttar inngrip Seðlabankans að því er virðist en líka virðast vera að koma inn peningar. Auðvitað er vöruskiptajöfnuðurinn jákvæður og hann skilar inn reglulega afgangi sem á að valda meira framboði en eftirspurn á erlendri mynt. Gengið er því að lagast, það lagaðist um 12–14% bara í síðasta mánuði, 12–14% sem erlendar skuldir þeirra sem hafa gengistryggð lán hafa lagast. Þannig að sá sem skuldaði 20 millj. kr. skuldar núna 2,5 eða 3 millj. minna en fyrir einum eða einum og hálfum mánuði. Vandinn sem við erum að glíma við er að minnka af þessum ástæðum. Það má vel vera að margir geti leyst vandann núna sem ekki gátu það fyrir mánuði síðan. Þetta þarf að skoða.

Lækkandi gengi hefur náttúrlega miklu víðtækari áhrif, því að það gerir það líka að verkum að verðbólgan lækkar mjög hratt. Hún mun væntanlega lækka afskaplega hratt bara í þessum mánuði og næsta mánuði og fara miklu hraðar niður í það sem Seðlabankinn stefnir að vegna þess að aðaldriffjöðrin á bak við verðbólguna undanfarið hefur verið gífurleg hækkun á erlendri mynt sem er að lækka núna. Það ásamt lækkun á olíuverði á heimsmarkaði og öðru slíku ætti valda því að staða heimilanna ætti að lagast. Svo gefur þessi styrking á genginu líka færi á því að losa um þau höft sem hafa verið á gjaldeyrismarkaði. Það er ýmislegt mjög jákvætt að gerast og menn þurfa að horfa á það.

Herra forseti. Ég má til með að geta þess að við hér á þingi höfum ekki séð neitt frá ríkisstjórninni sem varðar stöðu heimilanna eða einstaklinga, bara ekki neitt. Menn hafa deilt hér. Þurfa að eyða einum degi í stefnuræðu, öðrum degi í að fá nýjan forseta þingsins fyrir einhverjar örfáar vikur og síðan kemur hér heilmikið mál varðandi Seðlabankann, þ.e. að koma einhverjum bankastjórum frá. Þetta er alltaf eitthvað persónulegt, þetta er ekki fyrir heimilin í landinu, alls ekki. Það breytir engu fyrir heimilin í landinu þó að skipt sé um seðlabankastjóra, akkúrat ekki neinu. Það breytir heldur engu fyrir heimilin í landinu þó að annar forseti sé hér á forsetastóli. Þetta er allt saman ekki gert fyrir heimilin í landinu.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn, sem er nú ekki viðstödd hér, að drífa í því að koma með einhver mál sem varða stöðu heimilanna í landinu, drífa í því og koma með eitthvað af viti fyrir stöðu einstaklinga til að minnka t.d. atvinnuleysið. Það hefur ekki verið gert. Stjórnarskiptin gera ekkert annað en að auka á sársauka heimilanna, auka á vandann, því að það gerist ekki neitt. Það hefur ekkert gerst núna í þrjár, fjórar vikur. Svo fara menn í kosningar og það mun enn auka á vanda og sársauka íslenskra heimila, því að í kosningabaráttu eru menn heldur ekki að auka atvinnu í landinu eða reyna að bæta stöðu heimilanna. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn, sem er fjarverandi, að gera nú eitthvað í því að koma með mál inn í þingið sem bæta stöðu heimilanna.