136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

279. mál
[16:19]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til að bregðast við síðustu orðum hv. þm. Péturs H. Blöndal um meint aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Það er „kómískt“ að sitja úti í sal og heyra það úr munni sjálfstæðismanns að ekkert sé verið að gera. Ég bendi hv. þingmanni á að sú ríkisstjórn sem nú starfar hefur ekki starfað mjög lengi en hefur þó á þeim tíma komið fram með stórmál, svo að ég nefni eitt dæmi, sem er greiðsluaðlögunarfrumvarp. Boðað var af hálfu hæstv. fjármálaráðherra áðan að það væri að koma frumvarp varðandi séreignarsparnaðinn.

Í verkefnaskrá núverandi ríkisstjórnar eru „konkret“ verkefni sem væntanlega koma inn í þingið núna í þessari viku og næstu og ríkisstjórnin hefur uppi áform um að vinna hratt og örugglega í samvinnu við þingið og þingnefndir. Ég held því að það sé algjör óþarfi af hv. þingmanni að standa hér geðillur í ræðustól og skamma hæstv. núverandi ríkisstjórn fyrir aðgerðaleysi. Margur heldur mig sig í þeim efnum. Eigum við ekki bara og bíða og sjá hvernig málum vindur fram næstu daga? Ég er alveg viss um að þegar upp er staðið mun þessi ríkisstjórn sem nú situr státa af þó nokkuð lengri og meiri afrekaskrá en sú hæstv. ríkisstjórn sem sat hér það sem af er þessu kjörtímabili.