136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna.

[13:34]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Landsbankinn, stærsti banki landsins, er stjórnlaus og í raun hinir tveir minni líka, Kaupþing og Glitnir. Það sjá allir.

1. Núverandi bankastjóri Landsbankans, Elín Sigfúsdóttir, hættir eftir 2–3 vikur.

2. Bankaráðsformaðurinn Ásmundur Stefánsson ákveður að fara til Indlands í mánuð á sama tíma og bankastjórinn er að taka til á skrifborðinu sínu.

3. Bankaráðsformaðurinn bætir um betur og lætur bankaráðið ráða sig fram á haust.

4. Hæstv. forsætisráðherra vill hnekkja þeirri ákvörðun og auglýsa stöðuna.

5. Hæstv. viðskiptaráðherra tekur undir með forsætisráðherra.

6. Hæstv. fjármálaráðherra kemur fram á Stöð 2 og er spurður um málið. Hann lætur það vera að upplýsa þjóðina um að hann hafi viljað gamlan vin sinn og baráttufélaga úr Alþýðubandalaginu sáluga í bankastjórastólinn.

7. Það upplýsir hins vegar Haukur Halldórsson, núverandi bankaráðsformaður.

8. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lýsir því yfir í vikunni að skipta þurfi út bankaráðinu.

9. Tveir formenn bankaráðanna segja af sér í kjölfar yfirlýsingar forsætisráðherra og veikir það þar með stöðu bankaráðanna við stjórn bankans.

10. Hæstv. fjármálaráðherra biður þá að vera áfram þrátt fyrir orð forsætisráðherra.

Ég spyr því hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem formann þingflokks Samfylkingarinnar: Er þetta ástand í bönkunum virkilega samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarflokkanna og Samfylkingarinnar um endurreisn atvinnulífsins og endurreisn heimilanna, að taka þrjár helstu stoðir íslensks fjármálalífs og gera þær stjórnlausar? Þurfum við ekki einmitt á styrkri stjórn að halda núna og fumlausum vinnubrögðum ofar öllu? Er þessi klíkuráðning dæmi um gegnsæi sem Samfylkingunni er svo annt um? Er þessi aðferð við að ýta þrautreyndum bankastarfsmanni úr starfi sem vill nú svo til að er kona samboðin (Forseti hringir.) tímamótaríkisstjórn sem kennir sig við jafnréttismál? Kona sem síðasta ríkisstjórn óskaði sérstaklega eftir (Forseti hringir.) í ljósi reynslunnar að stýrði Landsbankanum í gegnum versta brimskaflinn.