136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna.

[13:37]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var víða komið við í þessari fyrirspurn og ég vil upplýsa hv. þingmann um að bankarnir heyra ekki undir mig sérstaklega heldur fer hæstv. fjármálaráðherra með hlutabréf ríkisins eins og hv. þingmaður veit — en til að rifja upp og hafa tímasetningar á hreinu þá man ég ekki betur en bankastjórastarf í Landsbankanum hafi verið auglýst í tíð fyrri ríkisstjórnar svo að öllu sé skikkanlega til haga haldið.

Ég veit ekki til þess að bankarnir séu stjórnlausir. Hins vegar kom það fram á ágætum fundi hjá Mats Josefsson í morgun að hann hvatti eindregið til þess að ríkið færi að koma fram eins og eigandi bankanna, móta stefnu um það hvernig þeir eiga að starfa o.s.frv. — það er liður í því að byggja upp bankana og móta stefnu til lengri tíma.

Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, að mér finnst það ekki nægilega góður málflutningur hér í þingsal þegar því er haldið fram í hvert eitt sinn að ef sjálfstæðismenn ráða menn í störf sé um að ræða vandaða ráðningu og yfir alla gagnrýni hafna — ef ég man rétt þá held ég að hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, hafi skipað öll bankaráðin sem nú sitja — þá væntanlega líka umræddan Ásmund Stefánsson, þrautreyndan bankamann — þannig að mér finnst þessi umræða ekki til þess fallin að upplýsa, styrkja eða byggja upp bankakerfið sem við þurfum virkilega á að halda.