136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna.

[13:43]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft að varpa örlitlu ljósi á fyrirspurn hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar vegna starfa bankaráða og bankastjóra Landsbankans og annarra íslenskra viðskiptabanka í dag. Þá var það svo að ég, sem þáverandi viðskiptaráðherra, og þáverandi fjármálaráðherra, hv. þm. Árni Mathiesen, áttum fundi með formönnum bankaráðanna og skýrðum þeim frá þeim vilja ríkisstjórnarinnar að auglýsa bæri störf bankastjóra ríkisbankanna þriggja. Það var vilji eigenda bankanna að svo yrði gert. Þeir voru ráðnir — ráðið var gott og grandvart fólk sem hefur staðið sig vel — en bráðabirgðastjórnir allra bankanna voru á sínum tíma skipaðar í miklum flýti og það var eðlilegt að þegar búið væri að skipa bankaráðunum varanlegar stjórnir að þau störf væru auglýst. Það skiptir öllu máli til að byggja upp traust á fjármálafyrirtækjunum aftur að þessi störf séu auglýst og fólki sé gefinn kostur á að sækja um þau.

Í dag var vinnan við endurreisn á bankakerfinu kynnt og hún virðist ganga prýðilega vel. Hvað varðar formann bankaráðs Landsbankans þá tek ég undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hann hefur staðið sig afskaplega vel og er að brúa þarna bil þannig að það gerist ekki sem hv. þingmaður lýsti hér áðan að eitthvert stjórnleysi skapist eða eitthvert millibil verði áður en búið er að ganga frá ráðningu á nýjum bankastjóra, hann er að brúa það bil og það er hið besta mál.

Hvað varðar forseta lýðveldisins og það sem var nefnt hér áðan þá tel ég að út úr orðum hans hafi verið snúið mjög gróflega. Það var afflutt mjög alvarlega í erlendum fjölmiðlum og hann fór að mínu mati hvergi út fyrir sitt svið. Það var snúið mjög gróflega út úr því og hann hefur skýrt það mál mjög vel svo að því sé til haga haldið í þessum umræðum fyrst hans mál ber á góma í þingsal. Hann hefur staðið sig framúrskarandi vel og ekki í neinu farið út fyrir sitt valdsvið. Orð hans voru gróflega afflutt í þýskum fjölmiðlum.