136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[13:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er engu líkara en að þessi liður á dagskrá þingsins, störf þingsins, sé orðinn eins konar frambjóðendaskóli fyrir Sjálfstæðisflokkinn. (Gripið fram í.) Þeir koma hér upp hver á fætur öðrum til þess að láta á sér bera og taka upp málefni sem þeir eru nýkomnir úr.

Varðandi þá fyrirspurn og það málefni sem hv. þm. Bjarni Benediktsson vakti máls á og beinir fyrirspurn til mín sem formanns utanríkismálanefndar þá get ég auðvitað bara fjallað um málið að því leyti hvernig það snýr að utanríkismálanefndinni sjálfri.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson er nýstiginn úr stóli formanns utanríkismálanefndar þar sem málið hefur að sjálfsögðu verið til umfjöllunar og í raun og veru ætti hann að hafa miklu meiri vitneskju um þær umræður, álitamál og sjónarmið sem hafa komið fram í málinu á þeim vettvangi en ég sem hef einungis setið í nefndinni örfáa daga.

Ég vil þó greina frá því og segja það kannski fyrst að þetta mál er að sjálfsögðu í ákveðnu viðræðuferli sem var sett á laggirnar eða sett af stað af fyrrverandi ríkisstjórn, m.a. á grundvelli þeirrar þingsályktunar sem var samþykkt á Alþingi og hún er auðvitað í gildi burt séð frá þeim sjónarmiðum sem komu upp í umræðu um það mál. Hún er staðreynd og þetta mál er þar af leiðandi í ákveðnu viðræðuferli og ekkert meira um það að segja í raun og veru.

Ég vil þó upplýsa að á fundi utanríkismálanefndar í morgun bar þetta örlítið á góma og var óskað eftir því að á fund nefndarinnar kæmi bæði utanríkisráðherra og fjármálaráðherra til þess að gera grein fyrir stöðu málsins, þeim viðræðum sem eru í gangi og hvernig núverandi ríkisstjórn hyggst standa að því máli og hvort hún geri ráð fyrir einhverjum breytingum á afstöðu íslenskra stjórnvalda (Forseti hringir.) hvað varðar málið. Það verður tekið fyrir á vettvangi nefndarinnar (Forseti hringir.) áður en langt um líður og málin gætu þá skýrst að einhverju leyti.