136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[14:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Varðandi Icesave-reikningana og samskipti við Evrópusambandið sem kúgaði okkur til uppgjafar held ég að menn eigi að láta flokkadrætti vera. Þetta er það mikið mál að þingmenn eiga allir að standa saman. Ég ætla að vona að hæstv. utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðherrar standi í lappirnar gagnvart þessu máli og ef þeir neyðast til að semja verði ekki samið um meira en svo að íslenska þjóðin geti staðið við það. Við megum ekki missa aðalauðlind þjóðarinnar, sem er mannauðurinn, úr landi. Það verður miklu meiri skaði, líka fyrir þær þjóðir sem eru að gera á okkur kröfur. Þær verða að stilla kröfum sínum í hóf, þær fá langmest greitt ef íslenska þjóðin heldur þessari aðalauðlind sinni í landi og getur borgað.