136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

starfsemi viðskiptabankanna – Icesave-deilan.

[14:02]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins um störf þingsins. Þegar ég vissi að ég væri að koma inn á Alþingi fylgdist ég með umræðum í sjónvarpinu til að vita betur um störfin. Reyndar hef ég gert það oftar en ekki í gegnum áraraðirnar því að ég hef verið það pólitísk og verið mikið í stjórnmálum að ég hef fylgst mjög vel með þinginu almennt.

Þá bar það við miðvikudaginn 4. febrúar að mikið karp var um kosningu forseta Alþingis, ótrúlegt. Fimmtudaginn 5. febrúar, á fyrsta heila starfsdegi Alþingis með nýrri ríkisstjórn, var umræða um greiðsluaðlögun, rifrildi, frammíköll og að mínu mati hálfgerð upplausn um hver samdi frumvarpið eins og það skipti fólk úti í þjóðfélaginu einhverju máli — eða hvað? Föstudaginn 6. febrúar var umræða um Seðlabankann, karp, frammíköll, málþóf. Í gær, minn fyrsta dag á Alþingi, upplifði ég ekki mjög málefnalegar umræður, frammíköll og ýmis upphrópunarefni. Mér fannst, ég verð að segja alveg eins og er, ég vera komin á framboðsfund vestur á fjörðum í gamla daga með Matta Bjarna, Sighvati Björgvins, Vilmundi Gylfa og Karvel Pálma.

Þá var ekkert sjónvarp svo allir íbúarnir voru að fara á skemmtifund og þeir höfðu gaman af. En mér finnst sorglegt að horfa upp á sjálfstæðismenn eiga mjög erfitt með að vera í stjórnarandstöðu og ekki geta fótað sig. Almenningur sem heima situr og horfir agndofa á slíkar umræður og bíður í ofvæni eftir að Alþingi segi eitthvað og geri eitthvað til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum þessa lands bíður. Almenningur á þá augljóslega (Forseti hringir.) að bíða og bíta í skjaldarrendur. Ég bið ykkur, þingmenn, um að hafa aðgát í nærveru sálar og (Forseti hringir.) sýna þingi og þjóð þá virðingu að láta karpið bíða til kosningabaráttunnar.