136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:06]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að koma inn í umræðu um þetta mikilvæga mál, orkunýtingu á Norðurlandi og uppbyggingu atvinnutækifæra á Húsavík.

Í Norðurþingi búa rétt um 3.000 manns. Allt mannlíf þar hefur ávallt einkennst af dugnaði, þori og frumkvæði þeirra sem þar búa. Þingeyingar hafa alla tíð leitað allra tækifæra til að efla byggð og atvinnu á sínu heimasvæði þjóðinni allri til heilla. Til að ná þeim markmiðum hafa Þingeyingar haft nána samvinnu við íbúa Norðurlands alls og raunar farið heiminn á enda til að leita nýrra tækifæra. Því miður hefur fólksfækkun þó verið nokkur á liðnum árum og, það sem verst er, 25% fækkun hefur orðið í aldurshópnum 18–40 ára. Staðreyndin er sú að störfum hefur fækkað og þá sér í lagi í sjávarútvegi og landbúnaði. Við þessu verður að bregðast.

Í mörg ár hafa Norðlendingar barist fyrir því að nýta orkuauðlindir þjóðarinnar í þágu uppbyggingar atvinnulífs. Það hefur gengið á ýmsu. Um langan aldur voru uppi áform um stóriðju í Eyjafirði. Akureyringum tókst svo að koma upp álþynnuverksmiðju á Akureyri sem mun skapa störf og verðmæti fyrir allt þjóðarbúið. En því miður er mjög á brattann að sækja á Húsavík. Þrátt fyrir einbeittan vilja sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi finnst mönnum skorta mjög á stuðning til að þetta svæði geti nýtt orku sína til atvinnusköpunar. Orkuveita Húsavíkur og Norðurorka hafa tekist á herðar gríðarlegar skuldbindingar ásamt Landsvirkjun til að greiða fyrir því að af orkunýtingu geti orðið. Menn héldu af stað, sameinaðir Norðlendingar, til þessa verks, náðu samkomulagi við orkukaupanda og ríkið og unnu af miklum heilindum að framgangi verksins.

Því miður gekk alls ekki nógu vel að koma málinu áfram í tíð fyrri ríkisstjórnar sem minn flokkur átti aðild að. Kom þar til vandræðaástand út af umhverfismati og svo skall á þessi vandræðakreppa sem engu eirir. Allt er einhvern veginn í biðstöðu. Menn verða að átta sig á því að hér er um að ræða orkurannsóknir og slík vinna sem er hrein þróunarvinna krefst þolinmóðs fjármagns. Veitufyrirtækin hafa ekki slíkt fé í handraðanum núna og ríkið verður sennilega að hjálpa þessum aðilum til að tryggja nauðsynlega peninga svo hægt sé að halda áfram. Ég vil vita hvort hæstv. umhverfisráðherra hyggst beita sér í því.

Það kreppir að um allt land en harmakveinin eru ekki minnst á höfuðborgarsvæðinu. Ég óttast það mjög að Norðlendingar muni sitja eftir með sín áform vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera fjárfestingarsamning vegna Helguvíkur. Þetta má alls ekki verða. Það verður hreinlega að tryggja að þessum verkefnum verði ekki stillt upp sem andstæðum pólum. Það er alveg skýrt í mínum huga, herra forseti, að við þær aðstæður sem í landinu eru þarf að leggja allt kapp á atvinnuuppbyggingu og gjaldeyristekjur. Það er þannig og einungis þannig sem við munum vinna okkur út úr vandanum. Við verðum að skapa meiri gjaldeyri fyrir þjóðarbúið, við verðum að nýta auðlindir okkar af skynsemi og þessi ríkisstjórn sem hefur stuttan tíma til að starfa verður að líta í þessar áttir þegar menn horfa framan í þann vanda sem við blasir. Þessi ríkisstjórn verður að setja þessi mál á dagskrá.

Ég vil að það komi skýrt fram að ég styð að allir möguleikar til uppbyggingar og orkunýtingar séu skoðaðir. Þess vegna gleðst ég yfir því að hæstv. fjármálaráðherra telur sig hafa fundið sóknarfæri í kísilmálmframleiðslu auk álframleiðslu. En ég staldra við það hvernig þessi áhugi hæstv. ráðherra spilar saman við stefnu Vinstri grænna í loftslagsmálum. Kísilmálmiðnaðurinn losar nefnilega 5 tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af kísilmálmi, en það er tvisvar sinnum meiri losun en við álframleiðslu. Ef vinstri grænir eru á þeirri skoðun að framleiðsla af þessu tagi sé heppileg treysti ég því að þeir muni styðja það af alefli að Ísland fái nægilegar losunarheimildir til slíkra hluta. Ég fagna því sérstaklega að flokkurinn virðist vera farinn að gera sér grein fyrir því að flestum iðnferlum fylgir losun gróðurhúsalofttegunda.

Aðalatriðið er að Norðlendingar hafa í góðri trú unnið ásamt ríkinu að því að skapa grunn að atvinnu í landinu öllum til heilla. Það er grundvallaratriði að ríkisstjórnin komi að borðinu með ákveðnum hætti, annars vegar með því að treysta rannsóknir og þróunarvinnu og hins vegar með raunsærri stefnu í orkumálum. Lykillinn að þessu öllu saman er sá að til þess þarf að fá erlent fjármagn inn í landið (Forseti hringir.) og við þurfum að tryggja fjárfestingu eins og hinn skeleggi hæstv. iðnaðarráðherra sagði þegar hann gerði fjárfestingarsamning vegna Helguvíkur. Nákvæmlega það sama gildir um orkuuppbyggingu á Norðurlandi.