136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:16]
Horfa

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er auðvitað mikil þörf á því að ræða um atvinnumál í þessum sal, ekki síst um stóriðju og orkunýtingu. Ég verð þó að segja með fullri virðingu fyrir hv. þm. Ólöfu Nordal að ég átta mig ekki alveg á nálgun hv. þingmanns á málið. Ég hefði talið eðlilegt að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra sem málið heyrir undir, en að vísu hefði hugsanlega engin þörf verið á því heldur vegna þess að hæstv. ráðherra hefur talað afar skýrt í þessu máli í fjölmiðlum opinberlega.

Það liggur alveg ljóst fyrir, eins og kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, að viljayfirlýsing varðandi þessar framkvæmdir liggur fyrir og gildir þar til í septembermánuði. Þar af leiðandi munu stjórnvöld að sjálfsögðu standa við þá viljayfirlýsingu. Það er hins vegar kunn staða að vandi hefur komið upp í þeim iðnaði sem hér um ræðir og víðar eins og við þekkjum og vandamálið er þess vegna það að fá fjármagn til verksins. Um það snýst þetta mál núna. Það er eðlilegt að hv. þm. Ólöf Nordal ræði um yfirlýsingu sem gerð var vegna fjárfestingarsamnings við álver í Helguvík sem er algjörlega sambærilegur við þann fjárfestingarsamning sem gerður var við álver á Reyðarfirði og ef álver á Bakka kemst á það stig sem álver í Helguvík er komið á verður að sjálfsögðu gerður sambærilegur samningur um það verk. Um þetta þurfa hv. þingmenn ekki að vera í neinum vafa.

Til þess að skýra málið fyllilega vil ég segja að við hv. þingmenn Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi höfum ætíð staðið þétt að baki þessu verkefni. Við höfum haft trú á því alla tíð og við höfum enn trú á því, en hins vegar ráðum við ekki ein för, því miður, í þessu máli. Fjárfestir verður að koma að málinu og um það snýst málið. Stjórnvöld munu að sjálfsögðu koma að því máli eins og öðrum slíkum og við vonum, ekki síst vegna þeirrar stöðu sem nú er í efnahagsmálum, (Forseti hringir.) að það geti orðið sem allra fyrst.